Á yngri árum þótti hann svo efnilegur knattspyrnumaður að skoski sóknarpresturinn á Tjörn á Vatnsnesi, séra Róbert Jack, nýtti sér vináttu sína við knattspyrnugoðið Sir Matt Busby til að fara út með hann til æfinga hjá Manchester United. Þar kom það báðum á óvart að hann skyldi fá að æfa með aðalliðinu og fá leik.

Leikurinn var gegn Norwich á undirbúningstímabili fyrir deildakeppnina. Morgunblaðið sagði á sínum tíma frá þessu í heilsíðugrein og séra Róbert Jack fjallaði einnig um leikinn í 2. bindi sjálfsævisögu sinnar. Síðan hefur þetta fallið að mestu í gleymsku, þar til nú að Rúnar rifjar ævintýrið upp á Stöð 2.

Rúnar fékk einnig tækifæri til að æfa með Celtic í Skotlandi og Grenoble í Frakklandi og var boðinn hálfsárs reynslusamningur hjá United. Spurður hvort hann hafi átt raunhæfa möguleika á að verða atvinnumaður í fótbolta svarar Rúnar:
„Ég er alveg handviss um það, ef ég hefði farið út á réttum tíma undir réttri leiðsögn.”
Rúnar segir frá þessu mikla ævintýri og hversvegna búskapurinn varð ofaná hér í þættinum „Um land allt“ sem má sjá hér að neðan.