Farid Zato, miðjumaður KR, hefur ekki spilað með liðinu það sem af er undirbúningstímabilinu og mun ekki spila með Vesturbæjarliðinu í bráð.
Hann kom meiddur til landsins í byrjun mánaðarins og óvíst er hvað tógóski miðjumaðurinn verður lengi frá keppni.
„Hann kom ekki nógu góður til landsins. Við erum að reyna að komast að því hvað er að, en þetta er eitthvað í leggnum á honum,“ segir Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, við Vísi.
„Vonandi kemst hann til læknis og í myndatöku fyrir vikulok en það er erfitt fyrir okkur að meta þetta núna.“
Zato, sem kom til KR frá Ólafsvík, spilaði 16 leiki í Pepsi-deildinni í fyrra, en háværir orðrómar hafa verið uppi um að KR vilji losna við hann. Það er erfitt í þessari stöðu.
„Við getum eiginlega ekkert ákveðið um stöðu hans eins og þetta liggur núna. Eins og staðan er núna er hann leikmaður KR,“ segir Bjarni Guðjónsson.

