Handbolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: ÍR - Valur 20-25 | Valur skrefi frá titlinum

Anton Ingi Leifsson í Austurbergi skrifar
Kári Kristján á ferðinni í kvöld.
Kári Kristján á ferðinni í kvöld. vísir/vilhelm
Valsmenn eru komnir með níu fingur á deildarmeistaratitilinn í handbolta þetta tímabilið eftir sigur gegn ÍR, 25-20. Hlíðarenda-piltar eru með þriggja stiga forskot á Aftureldingu þegar tvær umferðir eru óleiknar. Liðin mætast í lokaumferðinni.

Þeir rauðklæddu frá Hlíðarenda geta þakkað frábærri byrjun fyrir sigurinn, en þeir náðu góðu forskoti strax í byrjun og létu það aldrei af hendi. Þeir leiddu í hálfleik með fimm mörkum, 13-8. Í síðari hálfleik var svipað uppá teningnum og lokatölur urðu einmitt fimm marka sigur Vals, 25-20.

Valsmenn byrjuðu af miklum krafti og skoruðu meðal annars fimm fyrstu mörkin. Skelfilegt var að sjá sóknarleik ÍR í upphafi, en hann var mjög ómarkviss, lítil ógnun frá skyttunum og lítið flæði. Valsmenn gengu bara á lagið og komust meðal annars í 1-7, en þá loksins, loksins rönkuðu gestinir við sér.

Þeir skoruðu fyrsta mark sitt eftir ellefu mínútna leik, en þeir skoruðu fjögur mörk í röð í stöðunni 1-7 og voru komnir í leikinn. Þeir geta þakkað Arnóri Frey Stefánssyni, markverði sínum, fyrir það sem varði eins og berserkur í fyrri hálfleik. Þeir fóru að fá hraðaupphlaup frá Bjarna og hraðar sóknir sem skiluðu auðveldur mörkum, auk þess sem þeir fóru að koma boltanum framhjá Stephen Nielsen, markverði Vals, sem varði einnig vel í fyrri hálfleik.

Valsmenn voru þó ávallt skrefi á undan og leiddu með fimm mörkum í hálfleik, 13-8. Arnar Birkir Hálfdánsson, einn af aðalskyttum heimamanna, skaut tíu sinnum að marki í fyrri hálfleik og skoraði eitt mark og það mætti lengi telja. Heimamenn skrefi á eftir í fyrri hálfleik.

Í síðari hálfleik var það sama uppá teningnum. Valsmenn voru með tögl og haldir á leiknum og voru með sex marka forystu þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Þeir gerðu það sem þurfti og spiluðu góðan sóknarleik sem skilaði undantekningarlaust marki.

Heimamenn voru langt því frá að spila skynsaman sóknarleik. Þeir misstu boltann ítrekað, skutu úr vonlausum færum. Arnór Freyr datt niður í síðari hálfleik og varði ekki eins mikið, það gekk lítið hjá Arnari Birki í skyttunni og reynsluboltarnir Jón Heiðar og Sturla komust lítið í takt við leikinn.

Þeir tóku sig þó taki í síðari hluta seinni hálfleiks og bjuggu til leiks. Þeir minnkuðu muninn í þrjú mörk þegar þrjár mínútur voru eftir, en nær komust þeir ekki og Valsmenn sigldu sigrinum heim. Lokatölur 25-20. Alla tölfræði og framvindu leiksins má finna hér að neðan.

Óskar Bjarni: Besta markvarðapar sem Valur hefur átt

„Við byrjuðum vel, en misstum þetta fljótlega úr 7-1 í 7-5. Svo tókum við góðan kafla í síðari hálfleik líka,” sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, við Vísi í leikslok.

„Síðan lentum við í vandræðum þegar þeir skiptu um vörn, en þeir gefast aldrei upp og eru stríðsmenn. Það er frábært að fá tvö stig hérna á erfiðum og skemmtilegum útivelli.”

„Þegar þeir breyttu um vörn þá styttust sóknirnar okkar. Við reyndum að troða boltanum inn á línu, hættum að spila saman og gerðum tæknifeila. Yfirhöfuð fannst mér sóknarleikurinn ekki góður, við vorum ekki nægilega beittir.”

„Það er kannski vegna þess að við höfum verið í meiðslum og menn hafa ekki getað verið að æfa 100%, en varnarlega vorum við frábærir. Stephen var líka frábær og ég hefði viljað fá fleiri hraðarupphlaup, því varnarleikurinn var svo góður.”

„Við erum með tvo frábæra markmenn. Bubbi (Hlynur Morthens) lokaði markinu síðast og nú gerði Stephen það. Ég er bara virkilega ánægður með þetta markvarðapar og held þetta sé það besta sem Valur hefur átt. Valur hefur verið með marga frábæra markverði, en þetta par er ógnarsterkt.”

„Við erum að fara í erfiðan leik gegn Stjörnunni. Stjarnan og Fram eru þau lið sem er erfiðast að mæta líkt og Valur og Afturelding. Þessi lið eru að berjast um eitthvað, en önnur lið eru að berjast um sæti sem er erfitt fyrir þjálfara að gíra lið sitt upp í. Ég held að ÍR-ingarnir verði enn sterkari í úrslitakeppninni þegar Björgvin verður kominn inn.”

„Ég vil ekki taka um neina putta. Við ætlum bara að fara í Stjörnuleikinn og spila vel þar, en við ætlum að taka hann,” sagði Óskar Bjarni við Vísi.

Jón Heiðar: Verðum að laga sóknarleikinn fyrir úrslitakeppnina

„Byrjunin var hræðileg. Menn voru ekki mættir til leiks, sérstaklega sóknarlega, en burt séð frá því var sóknarleikurinn mjög slakur,” sagði Jón Heiðar Gunnarsson, línumaður ÍR, við Vísi í leikslok.

„Við erum að spila fína vörn mest allan tímann. Við erum að halda þeim í 25 mörkum þrátt fyrir að fá mörg mörk á okkur úr hraðaupphlaupum. Sóknarleikurinn er bara hausverkur eins og staðan er í dag.”

„Björgvin er mjög mikilvægur sóknarlega og það er bara komið ákveðið óöryggi, en þetta er eitthvað sem við verðum að laga fyrir úrslitakeppnina og vinna meira í,” sagði Jón og var ánægður með varnarleikinn, en ÍR fékk einungis 25 mörk á sig.

„Það er ekkert hræðilegt. Þetta er mikið úr hröðum upphlaupum, við erum með fína markvörslu og fína vörn. Við erum bara að kasta þessu frá okkur sóknarlega með lélegum sendingum, lélegum skotum.”

„Stephen var frábær í markinu. Ég vil hrósa honum sérstaklega. Valsmenn gátu bakkað niður að línu og við leyfðum þeim að komast upp með það. Við vorum ekki nægilega ógnandi,” en hann segir að liðið ætli sér að halda heimavallarréttinum.

„Við ætlum að vera með heimaleikjarétt. Allt fyrir neðan fjórða sætið er mikil vonbrigði. Við ætlum að vera í heimaleikjarétt í úrslitakeppninni,” sagði Jón Heiðar að lokum við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×