Handbolti

Algjör martraðaræfing hjá Valsmönnum á mánudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Friðriksson og Geir Guðmundsson hafa verið á meiðslalista Valsmanna.
Elvar Friðriksson og Geir Guðmundsson hafa verið á meiðslalista Valsmanna. Vísir/Ernir
Valsmenn eru með þriggja stiga forskot á toppi Olís-deildar karla í handbolta eftir 25-23 sigur á Haukum í gær en staðan er eins góð á leikmannamálum félagsins.

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Valsliðsins, segir frá því í viðtali í Morgunblaðið í morgun að sjö leikmenn Valsliðsins glími nú við meiðsli.

Alvarlegustu meiðslin eru hjá hinum öfluga Guðmundi Hólmari Helgasyni sem þurfti að fara segulómskoðun á kálfa. Hinir sem glíma við meiðsli eru Geir Guðmundsson, Alexander Júlíusson, Stephen Nielsen, Vignir Stefánsson, Elvar Friðriksson og Orri Freyr Gíslason. Elvar og Orri spiluðu þó leikinn í gær.

Æfing liðsins á mánudaginn var algjör óhappaæfing en þá meiddust þrír leikmenn liðsins eða þeir Guðmundur Hólmar, Geir Guðmundsson (á læri) og Vignir Stefánsson (fingur).

„Þetta hefur verið svolítið furðuleg vika og erfitt að undirbúa liðið fyrir leikinn. Þessi mánudagsæfing var ein sú svakalegasta sem við höfum lent í. Sjúkralistinn sem lengdist á þeirri æfingu var orðinn ansi langur," sagði Óskar Bjarni við Morgunblaðið.

Óskar Bjarni er bjartsýnn á það að allir hans menn verði orðnir leikfærir í úrslitakeppninni sem hefst 7. apríl næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×