Erlent

Tugir þúsunda á vergangi í Nepal

Atli Ísleifsson skrifar
Öflugur jarðskjálfti reið yfir Nepal í nótt. Ljóst er að fleiri hundruð eru látnir og eyðileggingin mikil.

  • Samkvæmt lögregluyfirvöldum í Nepal er staðfest tala látinna eftir jarðskjálftanna mikla í Nepal nú 1.400.
  • Upptök skjálftans, sem mældist 7,9 að stærð, voru um 80 kílómetrum austur af borginni Pokhara, á um tveggja kílómetra dýpi.
  • Skjálftinn fannst meðal annars í Nýju-Delí og fjölda annarra borga í nágrannaríkinu Indlandi.
  • Að minnsta kosti tuttugu eftirskjálftar hafa orðið.
  • Þrettán hafa látist í grunnbúðum Everest.
  • Sjónarvottar segja fjölda bygginga í höfuðborginni Katmandú hafa fallið saman.
  • Fjögur íslensk ungmenni sem eru í ferðalagi í Nepal eru óhult og sama á við um Vilborgu Örnu Gissurardóttur og Ingólf Ragnar Axelsson sem stödd eru í grunnbúðum í hlíðum Everestfjalls.
20:00: Yfirvöld í Nepal hafa nú staðfest að 1500 manns hafi látist í jarðskjálftanum sem varð þar í dag. Óttast er að tala látinna eigi enn eftir að hækka og áætlað er að 45.000 hafi slasast.

Þúsundir munu dvelja utandyra í nótt en fjöldi snarpra eftirskjálfta hafa orðið í kjölfar þess stóra.

Björgunarlið streyma nú til Nepal til að aðstoða yfirvöld þar við að leita í rústum húsa og bygginga. Bandaríkin, Bretland, Indland og Pakistan eru á meðal þeirra ríkja sem hafa boðið fram neyðaraðstoð.

15:28: Talsmenn nepalska innanríkisráðuneytisins áætla að rúmlega þúsund fjallgöngumenn, og þar af fjögur hundruð útlendingar, hafi verið í grunnbúðum Everest eða á fjallinu sjálfu þegar skjálftinn varð.



15:15: Lögregla staðfestir að tala látinna sé nú komin yfir 1.400.



14:35:
Lögregla staðfestir að 970 hafi látist í skjálftanum. Meirihluti þeirra lést í Katmandúdalnum.

14:06: 
Um tuttugu eftirskjálftar, yfir 4,5 að stærð, hafa fundist á svæðinu en óttast er að enn eigi mikil spenna eftir að losna úr læðingi, þannig er gert ráð fyrir öðrum stórum skjálfta í dag.

Staðfest hefur verið að þrettán hafi farist í grunnbúðum Everest. Fregnir frá vettvangi ber ekki saman um umfang skemmdanna en nokkrir fjallgöngumenn hafa biðlað til björgunarmanna um að flýta sér á svæðið en sé ástandið grafalvarlegt. Fjörutíu eru slasaðir í grunnbúðunum.

Nepölsk yfirvöld hafa lýst yfir neyðarástandi á þeim svæðum sem urðu hvað verst úti.

Fjölmargar byggingar í Katmandú eru rústir einar. Þá fórust þrjátíu og fjórir í norðurhluta Indlands, sex í Tíbet og tveir í Bangladesh. Sautján hundruð eru særðir.

Björgunarmenn eru að störfum á hamfarasvæðunum og neyðaraðstoð berst nú frá Indlandi.

11:26: Talsmaður nepalskra yfirvalda segir 597 hið minnsta hafa látist í skjálftanum. CNN greinir frá þessu.

Dharahara-turninn í höfurborginni Katmandú hrundi í skjálftanum. Hann var reistur 1832 og var um 62 metrar á hæð.Vísir/AFP
11:17: Þurý Björk Björgvinsdóttir, sérfræðingur í utanríkisráðuneytinu, segir í samtali við Vísi að vitað sé af nokkrum Íslendingum í Nepal sem séu þar í göngu. „Okkur hafa ekki borist neinar fregnir af því að neitt þeirra sé í vanda. En við erum að vinna í þessu með sendiráðinu í Delí og ræðismanninum í Katmandú.“



11:05: 
Times of India hefur eftir lögreglu í Nepal að tala látinna sé nú komin upp í 565 manns.

10:58: 
Á Facebook-síðu Vilborgar Örnu Gissurardóttur segir (var birt um klukkan 9): „Skv. upplýsingum sem voru að berast frá AC, liði Vilborgar, er allt í góðu með hópinn í Camp 1. Þau halda enn sem komið er plani og verða í Camp 1 næstu tvo daga áður en þau halda áfram með aðlögunarferðina og fara upp í Camp 2. Við færum frekari fréttir þegar þær berast.

10:56: Átta manns hið minnsta létust í snjóflóðum í hlíðum Everest-fjalls nærri grunnbúðunum. NTB greinir frá þessu.

10:53: Yfirvöld á Indlandi hafa staðfest að þrettán manns hið minnsta hafi látist í landinu vegna skjálftans.

10:43: Á vef Verdens Gang segir að að minnsta kosti 449 hafi týnt lífi í skjálftanum. Þetta komi fram í nepölskum fjölmiðlum.

10:31: Fréttir hafa borist af því að tveir hið minnsta hafi látist í Bangladess og rúmlega hundrað manns slasast í skjálftanum.

10:23: Að minnsta kosti þrjátíu hafa slasast í snjóflóðum á Everest-fjalli. AP hefur þetta eftir talsmanni nepalskra yfirvalda.

10:20: Fjöldi bygginga sem standa við Durbartorgið í Katmandú og eru á heimsminjaskrá UNESCO eiga að hafa eyðilagst í skjálftanum.

10:12: Reuters greinir frá því að skjálftinn sé sá öflugasti í landinu í 81 ár.

10:10: Fréttir hafa borist af því að snjóflóð hafi víða fallið í hlíðum Everest-fjalls. Vilborg Arna Gissurardóttir og Ingólfur Arnar Axelsson eru nú í grunnbúðum Everest og kemur fram á Facebook-síðu Vilborgar að þau séu bæði óhult.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×