Handbolti

Selfyssingar missa Þuríði til Fylkis

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þuríður Guðjónsdóttir gerði tveggja ára samning við Fylki.
Þuríður Guðjónsdóttir gerði tveggja ára samning við Fylki. Mynd/Handknattleiksdeild Fylkis.
Þuríður Guðjónsdóttir mun spila með Fylkisliðinu í Olís-deild kvenna í handbolta á næsta tímabili en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá handknattleiksdeild Fylkis.

Þuríður, sem er nítján ára, hefur leikið með uppeldisfélagi sínu á Selfossi allan sinn feril. Hún hefur leikið með öllum unglingalandsliðum Íslands og hefur verið lykilmaður í liðum 3.flokks og meistaraflokks á Selfossi undanfarin misseri.

Þuríður er hörku skytta sem getur spilað allar stöður fyrir utan. Hún þekkir vel til í Árbænum, en lék undir stjórn Halldórs Stefáns Fylkisþjálfara á sínum yngri árum á Selfossi ásamt því sem hún hefur spilað með Theu Imani í yngri landsliðum Íslands.

„Mér líst vel á að vera komin í Árbæinn. Hér eru spennandi tímar framundan, ég þekki aðeins til stelpnanna í liðinu og líst mjög vel á þær og hlakka til að vera hluti af hópnum. Ég hlakka líka til að vinna aftur með Halla þjálfara, en ég hef trú á því að hjá honum geti ég bætt mig enn frekar. Eftir að ég fór á fund með Fylki leist mér vel á markmið félagsins til næstu ára, við stefnum mjög hátt og ég hef trú á því að það muni ganga upp. Þá er umgjörðin í kringum liðið mjög spennandi, það er mjög flott fólk í kringum þetta eins og Kjartan formaður, Jóhannes Lange og fleiri," segir Þuríður í fréttatilkynningu frá handknattleiksdeild Fylkis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×