Viðskipti innlent

ÁTVR svarar fyrir sig: „Vangaveltur sem eiga sér litla stoð í raunveruleikanum“

ingvar haraldsson skrifar
Deilt er um rekstur Vínbúða ÁTVR.
Deilt er um rekstur Vínbúða ÁTVR. vísir/stefán
ÁTVR hafnar alfarið því sem fram kemur í nýrri skýrslu greiningarfyrirtækisins Clever Data á rekstri stofnunarinnar. Í skýrslunni er því haldið fram að Vínbúðarhluti ÁTVR stæði ekki undir sér.

„Niðurstöður hennar eru vangaveltur sem eiga sér litla stoð í raunveruleikanum og ÁTVR hafnar þeim alfarið. ÁTVR hefur aldrei verið rekin með tapi frá því að áfengisgjöld og tóbaksgjöld voru aðskilin frá rekstrartekjum verslunarinnar,“ segir í tilkynningu frá ÁTVR.

Kostnaður vegna áfengis og tóbakssölu ekki sundurgreindur

Þá er einnig bent á að ÁTVR er lögum samkvæmt rekin sem ein heild, þ.e.a.s. starfsemin að því er lýtur að smásölu áfengis annars vegar og heildsölu tóbaks hins vegar er ekki aðgreind í rekstri fyrirtækisins eða bókhaldi.

„Ljóst er að aðgreindur rekstur hefði í för með sér verulega óhagkvæmni, enda eru veigamiklir rekstrarliðir sameiginlegir báðum þáttum starfseminnar. Nægir hér til dæmis að nefna húsnæðiskostnað, kostnað við meðhöndlun vöru í vöruhúsi, rekstur tölvukerfa, vöruinnkaup,  vörudreifingu og launakostnað.“

Þá er einnig bent á að í bókhaldi ÁTVR sé ekki sundurgreint hvernig slíkur kostnaður deilist á milli áfengis- og tóbakshlutans og því séu engin gögn til um kostnaðarskiptingu. Kostnaður vegna vörunotkunar áfengis annars vegar og tóbaks hins vegar sé aðgreindur í rekstrinum og sundurliðaður í ársreikningi fyrirtækisins.

ÁTVR ræður ekki álagningu

Þá er einnig bent á að ÁTVR ráði ekki álagningu sinni á áfengi og tóbak. Hún sé ákveðin með lögum frá Alþingi. ÁTVR segir þó að heildsala tóbaks skili hlutfallslega meiri hagnaði en smásala áfengis. „Munurinn ræðst fyrst og fremst af ákvörðun Alþingis um álagningu, sem áður er vísað til, og eins því að eðli máls samkvæmt kallar smásala áfengis á talsvert fleiri handtök og meira umstang en heildsala á tóbaki.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×