Fótbolti

Kahn: Guardiola er ekki að nota Götze rétt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Götze hefur verið inn og út úr liði Bayern í vetur.
Götze hefur verið inn og út úr liði Bayern í vetur. vísir/getty
Oliver Kahn, fyrrverandi markvörður Bayern München, segir að þýsku meistararnir séu ekki að nota Mario Götze rétt.

Götze, sem er 22 ára, skoraði sigurmark Þjóðverja gegn Argentínu í úrslitaleik HM síðasta sumar en hefur gengið erfiðlega að festa sig í sessi í liði Bayern í vetur.

Götze hefur verið 26 sinnum í byrjunarliði Bayern í deildinni í vetur og skorað níu mörk.

Kahn, sem lék með Bayern í 14 ár, segir að Pep Guardiola, knattspyrnustjóri liðsins, noti Götze ekki rétt.

„Guardiola setur Götze inn á þegar leikirnir eru búnir,“ sagði Kahn en Götze kom inn á sem varamaður í leik Bayern og Barcelona á þriðjudaginn þegar þrjár mínútur voru eftir.

„Þeir eru ekki að nýta hæfileika hans. Thomas Müller er einnig að spila í rangri stöðu. Guardiola verður að finna lausn á þessum vandamálum,“ sagði Kahn ennfremur.

Bayern er fyrir löngu búið að tryggja sér þýska meistaratitilinn en féll úr leik í undanúrslitum bikarkeppninnar og Meistaradeildinni.

Oliver Kahn er ekki sáttur með hvernig Mario Götze er notaður hjá Bayern München.vísir/getty

Tengdar fréttir

Guardiola: Messi er besti leikmaður allra tíma

Pep Guardiola, þjálfari Bayern München líkti Lionel Messi við Pele og lýsti því yfir að besti leikmaður allra tíma hafi gert útslagið í undanúrslitaleikjunum við Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×