Tímatakan í Mónakó er ein sú allra mikilvægasta á tímabilinu. Það er afar erfitt að taka fram úr á brautinni og lítið svigrúm til að beita keppnisáætlun til að komast fram úr.
Í fyrstu lotu tímatökunnar börðust Mercedes menn á toppnum og Red Bull og Toro Rosso þar fyrir aftan. Marussia mennirnir duttu út ásamt Sauber mönnunum og Valtteri Bottas á Williams, sem kom talsvert á óvart.
Red Bull og systurliðið Toro Rosso náðu að raða sér í þriðja, fjórða, fimmta og sjötta sæti í fyrstu lotunni.
Önnur lotan hófst á því að Fernando Alonso á McLaren hætti þátttöku, líklega enn ein bilunin í bíl Spánverjans sem drap á sér.
McLaren mennirnir duttu út í annarri lotu ásamt Felipe Massa á Williams, Nico Hulkenberg á Force India og Romain Grosjean á Lotus.

Hamilton passaði sig að vera á undan Rosberg af stað í þriðju lotuna. Hann vildi forðast endurtekið efni frá því í fyrra.
Rosberg læsti dekkjunum á leið inn í fyrstu beygju á síðasta tímatökuhringnum sem átti að vera sá hraðasti. Eftir það var ekki möguleiki fyrir Rosberg að reyna við ráspól.
Bein útsending frá keppninni hefst klukkan 11:30 á morgun á Stöð 2 Sport.
Hér fyrir neðan má sjá gagnvirkt brautarkort af brautinni í Mónakó með öllum helstu upplýsingum um keppnina.