Körfubolti

Bogut: LeBron James stökk sjálfur á myndatökumanninn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James í nótt.
LeBron James í nótt. Vísir/Getty
Eftirminnilegasta atvik fjórða leiks Cleveland Cavaliers og Golden State Warriors í nótt var eflaust það þegar LeBron James fékk stóran skurð á höfuðið eftir samstuð við myndatökumann á endalínunni.

Andrew Bogut, ástralski miðherji Golden State Warriors, braut á LeBron James í nótt þegar James missti jafnvægið og endaði með hausinn á myndavél sem var á bak við körfuna.

Bogut, sem var settur út úr byrjunarliði Golden State Warriors fyrir leikinn, kom mjög grimmur inn af bekknum og lét finna vel fyrir sér eftir að hann var settur inn á völlinn.

Andrew Bogut hreinsaði sig hinsvegar af allri ábyrgð af meiðslum LeBron James, þegar hann var í viðtölum við blaðamann eftir leikinn.

„Ég held að hann hafi stokkið sjálfur á myndatökumanninn. Hann lenti og tók síðan tvö skref áður en hann datt á myndatökumanninn. Það er pottþétt að ég ýtti honum ekki svona harkalega," sagði Andrew Bogut.

Blaðamaður spurði Bogut þá hreint út hvort að Ástralinn hafi séð þetta svona. „Nei, þannig var þetta. Ef þú skoðar endursýninguna þá sérðu greinilega að hann tekur tvö skref áður en hann dettur. Það er það sem sést á endursýningunni og það er það sem liðsfélagar mínir sáu," sagði Bogut.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af því þegar LeBron James meiðist eftir samstuðið við Andrew Bogut.

Vísir/Getty
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×