Körfubolti

Með síðustu þrjá sem valdir voru fyrstir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Anthony Bennett, Karl-Anthony Towns og Andrew Wiggins verða allir á Úlfavaktinni í vetur.
Anthony Bennett, Karl-Anthony Towns og Andrew Wiggins verða allir á Úlfavaktinni í vetur. vísir/getty
Minnesota Timberwolves var með fyrsta valrétt í nýliðavalinu í nótt og valdi miðherjann Karl-Anthony Towns frá Kentucky-háskólanum.

Timberwolves var með versta árangurinn í NBA-deildinni á síðustu leiktíð (16-66) og er fyrsta liðið sem fær fyrsta valrétt í nýliðavalslottóinu eftir að enda með versta árangurinn.

Þrátt fyrir að hafa aldrei áður verið með fyrsta valrétt í nýliðavalinu spila með Minnesota á næstu leiktíð síðustu þrír leikmennirnir sem valdir voru fyrstir.

Cleveland Cavaliers, sem tapaði í úrslitum á móti Golden State Warriors fyrr í þessum mánuði, hefur verið ansi heppið undanfarin ár og fékk fyrsta valrétt í lottóinu bæði 2013 og 2014.

Árið 2013 valdi liðið Anthony Bennett frá UNLV-háskólanum og í fyrra valdi Cleveland Andrew Wiggins fyrstan, en hann spilaði með Kansas.

Wiggins spilaði þó aldrei leik fyrir Cleveland heldur var honum skipt með Bennett til Minnesota fyrir Kevin Love.

Bennett á enn eftir að sanna að hann geti orðið alvöru leikmaður í NBA-deildinni en Wiggins vakti mikla athygli á síðustu leiktíð og sýndi að hann á framtíðina fyrir sér.

Úlfarnir eru með ungt og spennandi lið og hafa nú innanborðs síðustu þrjá leikmennina sem valdir voru númer eitt í nýliðavalinu. Hvort það komi liðinu úr júmbósæti NBA-deildarinnar á svo eftir að koma í ljós.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×