Körfubolti

Ridnour sendur á milli NBA-liða í fjórða skiptð á einni viku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luke Ridnour.
Luke Ridnour. Vísir/NBA
Þetta er búið að vera mjög furðulegt sumar hjá NBA-leikmanninum Luke Ridnour og það varð enn furðulegra í dag þegar nýjasta "liðið hans" sendi hann til Kanada.

Luke Ridnour hefur fjórum sinnum farið á milli liða síðan að NBA-tímabilinu lauk og nú síðast sendi Oklahoma City Thunder hann til Toronto Raptors.

Ridnour kom til Oklahoma City Thunder í síðustu viku frá Charlotte Hornets í skiptum fyrir Jeremy Lamb en fyrr í sumar fór hann líka frá Orlando Magic til Memphis Grizzlies og frá Grizzlies til Charlotte Hornets.

Öll hafa þessi fjögur skipti gengið í gegn á einni viku. Ridnour var þannig bara einn dag í Memphis Grizzlies, hálfan dag í Charlotte Hornets og fjóran og hálfan dag í Oklahoma City Thunder. Hversu lengi hann verður í Toronto Raptors á eftir að koma í ljós.

Samningur Ridnour er ekki tryggður fyrir næsta tímabil og það á sinn þátt í því að félög eiga auðvelt með að nota hann í skiptum á meðan að þau eru að finna meira pláss undir launaþakinu.

Luke Ridnour er orðinn 34 ára gamall og hefur spilað í tólf ár í NBA-deildinni. Hann kom við sögu í 47 leikjum hjá Orlando Magic á síðasta tímabili og var með 4,0 stig og 2,0 stoðsendingar að meðaltali í þeim.

Ridnour var fyrst skipt á ferlinum þegar hann var hluti af skiptum þriggja liða í ágúst 2008. Ridnour var þá leikmaður Seattle SuperSonics en endaði í Milwaukee Bucks.

Ridnour fór líka á milli Minnesota Timberwolves og Milwaukee Bucks í júlí 2013 og á milli Milwaukee Bucks og Charlotte Bobcats í febrúar 2014.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×