Körfubolti

Valinn síðastur í fyrstu umferð 2011 en fær nú tólf milljarða samning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jimmy Butler.
Jimmy Butler. Vísir/Getty
Jimmy Butler verður áfram leikmaður Chicago Bulls en hann fékk nýjan risasamning hjá félaginu sem bandarískir fjölmiðlar sögðu frá í gær.

Jimmy Butler fær 90 milljónir dollar næstu fimm árin sem það mesta sem hann gat fengið frá Bulls. Þetta gera 11,965 milljarða íslenskra króna.

Fyrsta tímabil samningsins er 2015-16 en Butler á möguleika á því að sleppa síðasta ári samningsins sem er tímabilið 2019-20.

Þetta er veruleg kauphækkun en hann fékk rétt rúmlega tvær milljónir dollara fyrir síðasta tímabil og var búinn að fá samtals 5,3 milljónir dollara fyrir fyrstu fjögur tímabilin sín í NBA-deildinni.

Jimmy Butler var lengi vel þekktari fyrir frábæran varnarleik heldur en tilþrif í sókninni en það breyttist á nýloknu tímabili.

Butler var með 20 stig, 5,8 fráköst, 3,3 stoðsendingar og 1,8 stolinn bolta að meðaltali með Bulls-liðinu og var bæði valinn í Stjörnuliðið sem og í annað varnarlið ársins.

Hann var síðan valinn sá leikmaður sem tók mestum framförum milli tímabila og átti þau verðlaun fyllilega skilin.

Jimmy Butler skoraði 2,6 stig í leik 2011-12, 8,6 stig í leik 2012-13, 13,1 stig í leik 2013-14 og loks 20,0 stig í leik í vetur. Hann hefur einnig hækkað sig í fráköstum og stoðsendingum öll árin.

Butler stóð sig það vel að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, bað um það á twitter að uppáhalds NBA-liðið hans, Chicago Bulls, myndi semja aftur við leikmanninn.

Saga Jimmy Butler ætti að vera frábær dæmisaga fyrir alla sem eru tilbúnir að leggja mikið á sig til að ná árangri.

Á fjórum árum hefur þessi leikmaður farið frá því að vera valinn síðastur í fyrstu umferð nýliðavalsins í það að fá 11,96 milljarða samning.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×