Körfubolti

NBA markaðurinn: Leonard fær risasamning og Lakers ræðir við Love

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kawhi Leonard verður áfram hjá Spurs.
Kawhi Leonard verður áfram hjá Spurs. vísir/getty
San Antonio Spurs hefur náð munnlegum samningum við Kawhi Leonard um nýjan samning, en frá því var gengið í nótt um leið og markaðurinn opnaði í NBA-deildinni.

Leonard, sem var kjörinn besti leikmaður lokaúrslitanna í fyrra þegar Spurs vann Miami, fær fimm ára samning sem tryggir honum 90 milljónir dollara í tekjur. Frá þessu greinir ESPN.

Spurs mun þó bíða með að ganga frá pappírsvinnunni þar til í næstu viku þannig liðið eigi fé undir launaþakinu til að eltast við LaMarcus Aldridge, kraftframherja Portland.

„Liðið mun líklega líta töluvert öðruvísi út á næstu leiktíð þar sem svo margir eru frjálsir á markaðnum og við viljum aðeins breyta til hjá okkur,“ sagði Gregg Popovich, þjálfari San Antonio, eftir leiktíðina.

Kevin Love.vísir/getty
Lakers ræðir við Love

Kevin Love, leikmaður Cleveland Cavaliers, rifti samningi sínum við félagið eins og hann mátti gera og er frjáls á markaðnum.

Fastlegar er búist við því að hann skrifi undir nýjan samning við Cleveland, en fram kemur í frétt ESPN að Los Angeles Lakers ætli þó að setjast niður með honum.

Forráðamenn Lakers eru sagðir meðvitaðir um að Love sé líklega ekki á leið burt frá LeBron og félögum en þeir vilja engu að síður ræða við leikmanninn.

Love meiddist í úrslitum austurdeildarinnar í ár og tók ekki þátt í lokaúrslitunum þar sem Cleveland tapaði fyrir Golden State, 4-2.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×