Fótbolti

Engin smá reynsla í sóknarlínu Avaldsnes á lokasprettinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Hólmfríður Magnúsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Vilhelm
Hólmfríður Magnúsdóttir er hluti af einni reynslumestu sóknarlínu sem hefur sést í norska fótboltanum en saman hafa fimm sóknarleikmenn Avaldsnes-liðsins leikið 380 A-landsleiki fyrir landslið fjögurra þjóða.  

Norska úrvalsdeildarliðið Avaldsnes hefur bætt við sig tveimur leikmönnum í HM-fríinu og er heldur betur tilbúið í titilbaráttuna á móti Guðbjörgu Gunnarsdóttur og félögum í Lilleström.

Auk Hólmfríðar eru hjá liðinu norsku landsliðsframherjarnir Elise Hove Thorsnes og Cecilie Pedersen, brasilíska landsliðskonan Rosana dos Santos Augusto og kólumbíska landsliðskonan Yoreli Rincón.

Rosana er komin aftur til Avaldness en félagið samdi einnig við Yoreli Rincón sem vakti athygli með kólumbíska landsliðinu á HM kvenna í Kanada.

Hólmfríður Magnúsdóttir hefur skorað flest landsliðsmörk af þessum fimm eða alls 33 en hún er næstmarkahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi.

Avaldsnes er í 2. sæti deildarinnar, fimm sigum á eftir toppliði Lilleström en ekkert lið hefur skorað fleiri mörk í fyrstu átta umferðunum. Avaldsnes er komið með 23 mörk eða 2,9 að meðaltali í leik. Cecilie Pedersen er markahæst hjá liðinu með sjö mörk en Hólmfríður hefur skorað 5 mörk.

Það verður að teljast afar ólíklegt að allar fimm verði í byrjunarliðinu í fyrsta leiknum eftir HM-fríið og samkeppnin er því orðin mjög hörð fyrir Hólmfríði.



Landsleikjareynsla sóknarkvintetts Avaldsnes-liðsins:

Hólmfríður Magnúsdóttir hefur skorað 33 mörk í 97 A-landsleikjum fyrir Ísland.

Elise Hove Thorsnes hefur skorað 16 mörk í 85 A-landsleikjum fyrir Noreg.

Cecilie Pedersen hefur skorað 13 mörk í 37 A-landsleikjum fyrir Noreg.

Rosana dos Santos Augusto hefur skorað 21 mark í 112 A-landsleikjum fyrir Brasilíu.

Yoreli Rincón hefur skorað 9 mörk í 49 A-landsleikjum fyrir Kólumbíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×