Golf

Jordan Spieth fer illa af stað á John Deere Classic

Spieth fann sig ekki á fyrsta hring.
Spieth fann sig ekki á fyrsta hring. AP/Getty
Það er mikið að gerast í golfheiminum um helgina en í næstu viku hefst Opna breska meistaramótið á St. Andrews og keppast því bestu kylfingar heims um að komast í sem best form fyrir það.

Á PGA-mótaröðinni í Bandaríkjunum fer fram John Deere Classic á TPC Deere Run vellinum en eftir fyrsta hring leiða Nicholas Thompson og Justin Thomas mótið á átta höggum undir pari.

Jordan Spieth er meðal þátttakenda eftir tveggja vikna frí frá golfi eftir að hafa sigrað á US Open en hann fann sig aldrei á fyrsta hring og kom inn á sléttu pari.

Hann er í 101. sæti en skor þátttakenda var mjög gott á fyrsta hring.

Hinum megin við Atlantshafið fer fram Opna skoska meistaramótið á Evrópumótaröðinni en það fer fram á Gullaine strandarvellinum.

Þar eru margir bestu kylfingar heims meðal þátttakenda en mótið er talið frábær undirbúningur fyrir Opna breska sem fer fram í svipuðum aðstæðum.

Eftir fyrsta hring leiðir Thorbjorn Olesen frá Danmörku á sjö höggum undir pari en Rickie Fowler, Graeme McDowell, Jimmy Walker og Justin Rose ásamt fleiri þekktum nöfnum léku einnig vel á fyrsta hring og eru ofarlega á skortöflunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×