Miklar dómararhræringar hafa verið í stórleik 13. umferðar í Pepsi-deild karla í fótbolta á milli KR og Breiðabliks sem nú stendur yfir í Vesturbænum. Fylgjast má með leiknum í beinni textalýsingu hér.
Smári Stefánsson, aðstoðardómari, meiddist í upphitun og þurfti Erlendur Eiríksson því að taka línuna í hans stað. Þóroddur Hjaltalín var kallaður úr stúkunni og gerður að varadómara.
Þorvaldur fékk boltann í hausinn í fyrri hálfleik þegar Atli Sigurjónsson reyndi sendingu framhjá honum og féll Þorvaldur til jarðar. Hann kláraði fyrri hálfleikinn en mætti ekki til leiks í þeim síðari.
Dómarinn fékk heilahristing við að fá boltann í höfuðið og var ákveðið að taka engar áhættur með hann. Erlendur Eiríksson dæmir því seinni hálfleikinn, en hann er því í þriðja starfi sínu í kvöld.
Jóhann Gunnar Guðmundsson var kallaður út sem aðstoðardómari 2 og hleypur línuna í seinni hálfleik.
Atvikið sem orsakaði heilahristing Þorvaldar má sjá í spilaranum hér að ofan.

