Golf

Davis Love sigraði óvænt á Wyndham - Tiger klúðraði lokahringnum

Love með verðlaunagripinn.
Love með verðlaunagripinn. Getty

Bandaríski reynsluboltinn, Davis Love, sigraði á Wyndham meistaramótinu sem kláraðist nú í kvöld en þetta er í þriðja sinn á ferlinum sem hannn sigrar á mótinu.

Fyrir hringinn var Love fjórum höggum á eftir efsta manni en hann lék á 64 höggum eða sex undir pari og endaði á 17 höggum undir pari samtals.

Jason Gore sem var með forystuna fyrir lokahringinn þurfti að sætta sig við annað sætið á 16 undir en hann lék fjórða hring á aðeins einu höggi undir pari.

Augu allra voru á Tiger Woods fyrir lokahringinn en hann var í öðru sæti, tveimur á eftir efsta manni.

Til þess að lengja keppnistímabilið sitt þurfti Tiger helst á sigri að halda í kvöld en eftir rólega byrjun á fyrri níu holunum og hræðilegan þrefaldan skolla á 11. holu voru möguleikar hans úr sögunni.

Tiger verður því ekki með á Barclays mótinu um næstu helgi sem er það fyrsta í úrslitakeppni PGA-mótaraðarinnar en hann getur þó verið sáttur með frammistöðuna um helgina sem lofar góðu fyrir næsta tímabil sem hefst formlega í október.

Fyrir sigurinn fékk Davis Love rúmlega 120 milljónir króna í verðlaunafé en þetta er 21. sigur þessa farsæla kylfings á PGA-mótaröðinni á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×