Handbolti

Var ekkert í boði úti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Unnur var markahæsti leikmaður Gróttu þegar hún spilaði síðast í efstu deild á Íslandi.
Unnur var markahæsti leikmaður Gróttu þegar hún spilaði síðast í efstu deild á Íslandi. vísir/valli
Önnur umferð Olís-deildar kvenna í handbolta hefst í dag með sex leikjum. Þar ber hæst leikur Gróttu og Stjörnunnar en þessi lið áttust við í lokaúrslitunum í fyrra.

Þar hafði Grótta betur í fjórum leikjum og tryggði sér þar með fyrsta Íslandsmeistaratitilinn í sögu félagsins. Grótta er sömuleiðis ríkjandi deildar- og bikarmeistari og þá vann liðið Meistarakeppni HSÍ á dögunum.

Grótta teflir fram mjög svipuðu liði og í fyrra. Markvörðurinn efnilegi Elín Jóna Þorsteinsdóttir var lánuð til Hauka og Karólína Bæhrenz Lárudóttir fór til Svíþjóðar en landsliðskonan Þórey Anna Ásgeirsdóttir kom í hennar stað í hægra hornið. Önnur landsliðskona, Unnur Ómarsdóttir, er svo komin í vinstra hornið en hún sneri aftur á Nesið í sumar eftir árs dvöl í Noregi þar sem hún lék með Skrim í efstu deild.

„Við erum ógeðslega spenntar og það er fínt að fá heimaleik gegn þeim,“ sagði Unnur um leikinn gegn Stjörnunni sem hefst klukkan 13:30.

 Við spiluðum æfingaleik við þær fyrir mót og þær mættu dýrvitlausar til leiks og unnu hann. Við þurfum að mæta jafn ákveðnar til leiks og þær og gefa allt í þetta til að vinna leikinn.“

Unnur segir að það sé vissulega skrítið að vera allt í orðið liðið sem öll hin liðin vilja vinna: „Einmitt, þetta er svolítið skrítin staða fyrir okkur allar nema Önnu (Úrsúlu Guðmundsdóttur) sem hefur nánast alltaf verið í sigurliði.“

Grótta og Stjarnan mætast í stórleik umferðarinnar í Hertz-höllinni í dag.vísir/stefán
Erum of miklir kettlingar

Gróttu var spáð sigri í Olís-deildinni í árlegri spá þjálfara, fyrirliða og forráðamanna liðanna og Unnur segir markmið Seltirninga í vetur ósköp einfalt: að vinna alla titla sem í boði eru.

„Við erum allavega með lið í það og við getum náð markmiðum okkar ef við erum nógu einbeittar. Við erum búnar að taka nokkra æfingaleiki og þegar við erum ekki 100% vinnum við ekki leiki. Það virðast allir geta unnið alla,“ sagði Unnur og máli sínu til stuðnings nefndi hún leikinn í 1. umferðinni gegn ÍR þar sem Seltirningar áttu í mesta basli með að landa sigri.

„Ég var fegin að vinna leikinn gegn ÍR. Þetta leit ekkert vel út þegar það voru tíu mínútur eftir og tveggja marka munur. Við mættum ekki til leiks og þær hefðu alveg getað unnið leikinn.“

Unnur ítrekar að Grótta verði að halda einbeitingu og megi hvergi slá af í vetur.

„Við erum svo miklir kettlingar í vörninni, við þurfum að vera svolítið árásargjarnari eins og Anna Úrsúla er alltaf að tuða um. Það hefur vantað smá í byrjun móts og í æfingaleikjum, við erum smá hræddar við að vera harðar,“ sagði Unnur og bætti við:

„Það er meiri spenningur að koma í hópinn. Það eru allir að gefa aðeins meira í. Við vinnum ekkert ef við spilum á hálfum hraða á móti Stjörnunni. Þær refsa með hraðaupphlaupum og eru með sterka vörn.“

Unnur skoraði fimm mörk gegn ÍR í 1. umferðinni.vísir/valli
Var erfitt í fyrra

Unnur lék sem áður sagði í Noregi í fyrra og þurfti því að fylgjast með úr fjærlægð þegar fyrrum liðsfélagar hennar unnu stóru titlana þrjá.

„Ég var með í anda seinast,“ sagði Unnur. „Ég var að reyna að fylgjast með en sá engan leik um veturinn því það var ekkert sýnt. Ég gat náttúrulega ekki mætt og gat eiginlega ekkert fylgst með. Ég sá bara úrslitaleikina og það var svolítið skrítið að fylgjast með úr fjarlægð. Þetta var eiginlega sama lið og ég var í áður og ég var svolítið afbrýðissöm.“

Unnur segir gott að vera komin heim en dvölin í Noregi var enginn dans á rósum.

„Þetta er yndislegt og ég er mjög ánægð að vera komin heim. Það var svolítið skrítið að vera úti og mér leið ekkert rosalega vel í byrjun, kunni ekki málið og handboltinn var allt öðruvísi, sem var erfitt. Maður þekkir allt hérna og mér líður strax rosalega vel. Þetta var miklu erfiðara í fyrra,“ sagði Unnur en Skrim endaði í 7. sæti efstu deildar á síðasta tímabili.

Unnur og kærasti hennar, handboltamaðurinn Einar Rafn Eiðsson, fóru saman út í fyrra. Unnur og Einar bjuggu í Nøtterøy, þar sem liðið hans er staðsett, en Skrim, liðið hennar, er í bænum Kongsberg sem er í eins og hálfs tíma akstursfjarlægð frá Nøtterøy.

Unnur segir að þessi sífellda og langa keyrsla milli staða hafi verið lýjandi til lengdar: „Við bjuggum í bænum sem liðið hans var í og ég þurfti að keyra í einn og hálfan tíma til að fara á æfingu, bara aðra leið. Maður var ekkert að nenna að hanga með stelpunum eftir æfingu, maður kom mjög seint heim og þetta var hálf furðulegt.“

Unnur hefur leikið 20 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.vísir/valli
Landsliðsþjálfararnir vildu ég yrði áfram úti

Unnur segir það sé erfitt að vera handboltapar erlendis þar sem það sé þrautinni þyngri að finna lið fyrir báða aðila á svipuðum stað.

„Liðið hans Einars féll og þetta er allt öðruvísi úti. Í svona góðum liðum er bara kvennalið og öfugt. Það var ekkert karlalið í kringum mitt lið fyrir Einar. Við skoðuðum fullt, fórum til Þýskalands en það var ekkert í boði,“ sagði Unnur en Einar kom einnig heim í sumar og gekk þá að nýju til liðs við FH.

Unnur segir að þótt deildin í Noregi sé sterkari en hér heima sé ekkert verra að vera hér á landi og spila nánast hverja einustu mínútu í staðinn fyrir að sitja á bekknum úti. Að því leyti sé heimkoman ekki skref niður á við.

„Í raun ekki. Mér fannst ég ekkert græða á að sitja á rassgatinu helminginn af leikjunum. Ég held ég græði miklu meira á að spila hér á fullu og deildin hérna er orðin miklu sterkari en hún var,“ sagði Unnur sem viðurkenndi þó að heimkoman gæti haft áhrif á stöðu hennar í landsliðinu.

„Það gæti alveg gert það. Landsliðsþjálfararnir vildu að ég myndi halda áfram úti. Það væri gott fyrir landsliðið en það var ekkert í boði og það var ekkert sem ég gat gert í því. Mig langaði ekki að búa ein í einhverjum bæ og Einar í hinum og keyra í tvo tíma á æfingu. Þetta er ekkert líf í raun, ég sat endalaust í bílnum að keyra. Svo þurfti ég stundum að gista heima hjá einhverjum stelpum. Þetta var ekki áhugavert.

„Ég held að landsliðið græði meira á að ég spili 100% hér heima en að spila hálfan leikinn úti. Það er ekki gott fyrir sjálfstraustið að spila ekki jafn mikið og maður er vanur,“ sagði Unnur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×