Skoðun

Al­þingi og dýra­vernd

Árni Stefán Árnason skrifar

Um síðustu mánaðamót var þjóðin um tíma dofin, er henni bárust fregnir, staðfestar af Matvælastofnun um dýra­níðinga, sem framið höfðu lögbrot, að mati sömu stofnunar, á svínum.



Linnulaus fréttaflutningur var í eina viku af þessu óhugnanlega máli. Óljóst er með hvaða hætti Matvælastofnun mun bregðast við þessum atburðum, sem gerðust á síðasta ári. Viðbragðsleysi yfirdýralæknis, næstæðsta ráðamanns MAST, veldur undrun og óánægju.



Ef rýnt er í málavaxtalýsingar dýraverndarmála sem komið hafa til dóms hjá Hæstarétti Íslands liggur fyrir að verri lýsingar á illri meðferð dýra er erfitt að finna. Þrátt fyrir það virðist yfirdýralæknir hika við að kæra, en hann einn hefur skv. núgildandi löggjöf heimild til slíks. Það er hnökri á löggjöf og skerðing á tjáningarfrelsi þegar kæruréttur er tekinn af almenningi og andstætt skýrum ákvæðum laga um meðferð sakamála þar sem almenningi er veitt sú heimild.



Athygli vekur og að Alþingi, æðsta valdastofnun landsins, hefur ekkert brugðist við þessum tíðindum um dýraníðinga í íslensku búfjárhaldi að frátalinni Elínu Hirst, sem þó lagði aðaláherslu á mikilvægi matvælaöryggis með framboði hreinna íslenskra svína- og kjúklinga­afurða. Um það eru henni margir ósammála. Það eru þeir sem hafna notkun dýraafurða, einkum úr verk­smiðju­búskap.



Jafnvel eini þingflokkurinn, sem hefur dýravernd á stefnuskrá sinni, Björt framtíð, situr hjá. Hefur þó þingið eftirlit með störfum framkvæmdavaldsins, sem Matvælastofnun heyrir undir.



Er það svo, þegar upp kemst um einhverja verstu meðferð Íslandssögunnar á búfé, þá láti Alþingi það afskiptalaust þegar færa má rök fyrir því, að handvömm stofnunar ríkisvaldsins sé að hluta um að kenna?



Sl. mánudag var fyrsti óundirbúni fyrirspurnatími þingmanna eftir hlé. Ekki einn einasti þingmaður spurði landbúnaðarráðherra út í dýraverndarmálið.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×