Lón Reykdalsstíflu við lækinn í Hafnarfirði var í gær fyllt og þróin fyrir neðan yfirfallið fyllt af sérvöldu grjóti. Þá voru kaðlar settir á veggina og farvegurinn frá kerinu dýpkaður og hreinsaður. Fylgst verður sérstaklega með stíflunni næstu misseri og málið endurskoðað, ef talin verður þörf á, að sögn Helgu Stefánsdóttur, forstöðumanns umhverfis- og skipulagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar.
„Við fengum álit frá verkfræðistofunni Verkís um hvað hægt væri að gera í stöðunni. Í framhaldi af því var farið í að setja grjóthnullunga í kerið sjálft fyrir neðan yfirfallið til að koma í veg fyrir þessa iðumyndun,“ segir hún.
Ákvörðun var tekin um að tæma lón stíflunnar eftir að tveir ungir drengir voru hætt komnir þegar þeir festust í yfirfallinu við stífluna í apríl síðastliðnum. Óskað var álits verkfræðistofunnar Verkís, en það lá fyrir í lok ágúst og í kjölfarið var ráðist í þessar framkvæmdir.
„Við munum fylgjast með hvernig þessar aðgerðir hafa lukkast, þ.e við fylgjumst með hvernig vatnið fer þarna um og ef það er eitthvað sem okkur finnst ekki nógu gott þá verður málið endurskoða. Við teljum aðstæður ásættanlegar, miðað við það minnisblað sem við fengum frá Verkís,“ segir Helga.
