Fótbolti

Lewandowski: Ekki hægt að bera mig saman við Messi og Ronaldo

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Robert Lewandowski.
Robert Lewandowski. vísir/getty
Robert Lewandowski, framherji Bayern München, biðlar til manna um að hætta að bera sig saman við Cristiano Ronaldo og Lionel Messi.

Pólski framherjinn hefur verið í frábæru formi að undanförnu og skorað tólf mörk í síðustu átta deildarleikjum.

Hann jafnaði met Atla Eðvaldssonar á dögunum í þýsku 1. deildinni þegar hann skoraði fimm mörk í einum og sama leiknum gegn Wolfsburg og var einnig markahæsti leikmaður undankeppni EM 2016.

Sjá einnig:Atli horfði á Lewandowski jafna metið í beinni: Gaman að fá hann inn í klúbbinn

Þar sem hann skorar nú fleiri mörk en hann spilar leiki hefur hann verið borinn saman við tvo aðra menn sem stunda það grimmt; Ronaldo og Messi.

„Þeir eru öðruvísi leikmenn sem spila aðrar stöður. Cristiano spilaðir vinstra megin og Messi meira miðsvæðis en ég spila sem fremsti maður,“ segir Lewandowski í viðtali við Goal.com.

Pólverjinn sér fram á sín bestu ár í boltanum, en hann varð meistari með Bayern München í fyrra og varð einnig tvívegis meistari með Dortmund.

„Ég er 27 ára gamall núna og ég vill verða betri á hverju ári og skora fleiri mörk. Minn besti tími er að renna upp. Vonandi get ég haldið áfram eins og lengi og mögulegt er,“ segir Robert Lewandowski.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×