Innlent

Ekkert 85 ball fyrir MS-inga vegna verkfalls SFR

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá 85 balli MS árið 2010.
Frá 85 balli MS árið 2010. mynd/belja.is
Ekkert verður af því að 85 ballið, stærsti árlegi viðburður Menntaskólans við Sund, mun ekki fara fram í kvöld líkt og áætlað var vegna þess að ekki fékkst leyfi til að halda það. Ástæðan er verkfall starfsfólks hjá sýslumanni sem er í SFR.

Guðjón Þorri Bjarkason, ármaður MS
Nemendum var tilkynnt um þetta fyrir skemmstu í tölvupósti frá kennslustjóra skólans. Þar kemur fram að alveg liggi skýrt fyrir af hálfu lögreglunnar að ekki sé hægt að halda ballið án tilskilinna leyfa.

„Það er ömurlegt að lenda í þessu,“ segir Guðjón Þorri Bjarkason ármaður Menntaskólans við Sund í samtali við Vísi. „Við fórum með umsóknina löngu áður en verkfallið skall á en það náði ekki í gegn í tíma þrátt fyrir að þau hafi lofað okkur afgreiðslu. Við höfum haft samband við alla til að reyna að fá undanþágu en það virðist ekki ganga.“

Aðspurður um hvað verði gert, hvort ballinu verði frestað eða hvað nemendur ætli til bragðs að taka, segir Guðjón að það sé ekki komið í ljós. Málið sé svo nýtilkomið. Það kemur í ljós von bráðar hvað verði gert. 

85 ballið er lokahnykkurinn á 80‘s viku skólans en nær allir nemendur hans mæta á ballið. Áætlað var að Moonboots, Herbert Guðmundsson og Siggi Hlö myndu leika fyrir dansi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×