Varúð, spillir (e.spolier):Afgangur greinarinnar gæti spillt áhorfi þeirra sem vilja sjá The Force Awakens án þess að búa yfir nokkurri einustu vitneskju um söguþráð hennar. Er þeim ráðlagt frá því að lesa lengra.

Hamill lætur ummælin falla þegar 11 mínútur og 50 sekúndur eru liðnar af þættinum.
„Það hefði orðið mun skemmtilegra fyrir mig sem leikara,“ sagði Hamill um þessa hugmynd. „Mér fannst það líka vera rökrétt framhald þegar við kláruðum Empire Strikes Back. Ég yrði að koma aftur en þá með það markmið að drepa Han Solo eða Leiu Prinsessu eða einhvern sem okkur þykir vænt um.“
Lítið er vitað um söguþráð sjöundu myndarinnar og fæst því ekki úr því skorið enn um sinn hvort þetta samtal hafi haft áhrif á Abrams.
Í nýjustu stiklunni úr The Force Awakens þá heyrist illmenni myndarinnar, Kylo Ren leikinn af Adam Driver, segja: „Ég mun ljúka því sem þú hófst“ á meðan hann horfir á grímu Svarthöfða. Þessi lína „Ég mun ljúka því sem þú hófst“ hefur tryllt marga aðdáendur myndanna og velta einmitt margir fyrir sér hvað það er sem Kylo Ren ætlar að ljúka og hvort það tengist á einhvern hátt Loga Geimgengli.
Sjá má stikluna hér fyrir neðan:
Sagan í The Force Awakens gerist þrjátíu árum eftir atburðina í The Return of the Jedi þar sem Logi og Svarthöfði réðu niðurlögum Keisarans illa. Samkvæmt því rættist spádómurinn en í nýjustu stiklunni virðast Jedi-riddararnir hafa fallið í gleymsku og eitthvað skolast til á þessum áratugum sem hafa liðið. Hafa margir dregið þá ályktun vegna samtals sem þar sem ein af aðalsöguhetjunum, Rey, spyr Han Solo hvort að sögurnar um atburðina sem gerðust fyrir 30 árum væru sannar? Solo svarar því til að þær séu allar sannar.
Allar líkur eru þó á því á að ekkert sé að marka þessar kenningar Stjörnustríðsaðdáenda en aragrúi slíkra eru að finna á netinu um þessar mundir. Eftirvæntingin eftir þessari mynd er fáheyrð og eru ein vinsælustu myndböndin á myndbandavefnum YouTube þau sem sýna viðbrögð fólks við stiklunni sem frumsýnd var í vikunni.
Hér fyrir neðan má til að mynda sjá viðbrögð leikaranna sjálfra við stiklunni.