Sport

Robin Hedström skoraði fimm mörk í sigri íslenska landsliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Íshokkísamband Íslands/Elvar Freyr Pálsson
Íslenska íshokkílandsliðið vann í dag síðasta leikinn sinn í undankeppni fyrir vetrarólympíuleikana sem fara fram í Pyeongchang í Suður-Kóreu 2018.

Íslenska liðið tapað fyrstu tveimur leikjum sínum á móti Serbíu (4-5) og Spáni (3-5) en vann lokaleikinn sinn á móti Kína 11-3.

Íslenska liðið endaði því í þriðja sæti í riðlinum en Kínverjarnir töpuðu öllum þremur leikjum sínum.

Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskt landslið í íshokkí tekur þátt í undankeppni Ólympíuleika og íshokkísambandið gerði væntingar til þess fyrir mótið að íslenska liðið ætti ágæta möguleika á því að komast áfram.

Íslenska liðið tapaði naumlega í fyrsta leik og var síðan úr leik eftir fyrir Spáni. Strákarnir rifu sig hinsvegar upp og fóru heim með einn sigur.

Robin Hedström skoraði fimm af ellefu mörkum íslenska liðsins á móti Kína. Ingþór Árnason var með tvö mörk og þeir Pétur Maack, Andri Már Mikalesson, Róbert Pálsson og Andri Már Helgason skoruðu eitt mark hver.

Jóhann Már Leifsson skoraði ekki en átti fimm stoðsendingar, Andri Már Mikalesson var með þrjár stoðsendingar og þeir Ólafur Hrafn Björnsson og Emil Alengard gáfu tvær stoðsendingar hvor.

Undankeppnin var sú fyrsta af þremur sem þarf til að komast inn á leikana en Serbía og Spánn spila úrslitaleik í kvöld um það hvort liðið heldur áfram í næsta hluta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×