Fótbolti

Guðbjörg fékk tvo bikara í fangið í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Gunnarsdóttir.
Guðbjörg Gunnarsdóttir. Vísir/Getty
Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Guðbjörg Gunnarsdóttir fagnaði í gær með liðsfélögum sínum í Lilleström þegar Noregsmeistararnir fengu gullverðlaun sín afhent eftir lokaleikinn.

Guðbjörg gat ekki spilað lokaleikina vegna meiðsla sem hún hlaut í landsleik á móti Slóvenum á dögunum. Lilleström saknaði hennar greinilega því liðið fékk á sig fjögur mörk í leiknum.

Gull um hálsinn, gullhattur á höfuðið og Noregsbikarinn í fangið voru þó ekki einu verðlaunin sem Guðbjörg fékk í gær.

Guðbjörg var nefnilega kosin besti markvörður norsku deildarinnar á þessu tímabili og var hún verðlaunuð við sama tilefni. Guðbjörg fékk því ólíkt öðrum liðsfélögum sínum tvo bikara í fangið í gær.

Lilleström var búið að tryggja sér meistaratitilinn fyrir nokkru og áður en Guðbjörg meiddist. Leikirnir tveir sem hún missti af í lokaumferðunum skiptu liðið því engu máli.

Þetta 4-0 tap Lilleström á móti Kolbotn í lokaumferðinni þýddi hinsvegar að Lilleström-liðið fékk ekki á sig fæst mörk í deildinni því liðið fékk á sig einu marki meira en Avaldsnes.

Guðbjörg spilaði 20 af 22 leikjum Lilleström á tímabilinu og fékk á sig 12 mörk í þeim. Hún hélt hreinu í 11 af þessum 20 leikjum.

Það er nóg framundan því Lilleström spilar tvo leiki við þýska stórliðið FFC Frankfurt í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar og í framhaldi af því er síðan bikarúrslitaleikur við Avaldsnes.

Guðbjörg er í kapphlaupi um að ná sér góðri af meiðslum sínum fyrir þessa stórleiki. Hún var óheppin að meiðast í umræddum landsleik en fékk tvö tækifæri til að brosa út að eyrum í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×