Erlent

Boðar auknar öryggisráðstafanir í Svíþjóð

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Stefan Löfven vill meðal annars að auka eftirlit með rafrænum samskiptum.
Stefan Löfven vill meðal annars að auka eftirlit með rafrænum samskiptum. vísir/epa
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagðist á blaðamannafundi síðdegis ætla að herða öryggisráðstafanir í landinu vegna árásanna í París. Hann sagði stjórnvöld líklega hafa verið barnaleg til þessa gagnvart mögulegum hryðjuverkaárásum þar í landi.

Löfven sagði að líklega ættu Svíar erfitt með að sætta sig við að í hinu opna sænska samfélagi væri  að finna fólk sem tæki afstöðu með hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við Íslamskt ríki. Hann lagði til að aukið eftirlit yrði haft með rafrænum samskiptum, meðal annars farsímum og Skype.

Þá sagði hann að draga þyrfti þá sem tækju þátt í hryðjuverkastarfsemi að einhverju tagi til ábyrgðar. Fyrirhugað væri að setja lög um að óheimilt verði að taka þátt í hryðjuverkaþjálfun, eða –starfsemi, eða fjármagna slíkar ferðir.

Sænska öryggislögreglan hækkaði í gær viðbúnaðarstig vegna hættu á hryðjuverkum úr þremur í fjóra, sem er næst hæsta stig viðbúnaðar, en það hefur aldrei verið svo hátt í landinu. Að sögn sænskra fjölmiðla var viðbúnaðarstig hækkað eftir að upplýsingar bárust um að í landinu væri maður sem hefði það í huga að fremja hryðjuverk. Hann er 25 ára frá Írak, og er hans nú leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×