Innlent

Fangelsisfrumvarp viðhaldi vandanum

Snærós Sindradóttir skrifar
Guðmundur Ingi Þóroddsson segir að nýtt fangelsisfrumvarp hafi engin áhrif á stöðuna innan fangelsanna.
Guðmundur Ingi Þóroddsson segir að nýtt fangelsisfrumvarp hafi engin áhrif á stöðuna innan fangelsanna. Mynd/aðsend
„Við bentum á það að frumvarpið er samið að mestu leyti af Fangelsismálastofnun um Fangelsismálastofnun. Svo bentum við á það að Íslendingar eru ekki komnir með betrunarstefnu, heldur erum við með refsikerfi,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga.

Frumvarp til laga um fullnustu refsinga var lagt fram á Alþingi í vikunni. Afstaða hafði gert athugasemdir við drög frumvarpsins í júní en lítur svo á að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra.

„Það eru fjögur atriði sem eru rosalega góð: Lenging á samfélagsþjónustu, lenging á rafrænu ökklabandi, reynslulausn fyrr fyrir unga afbrotamenn og fjölskylduleyfi fyrir langtímafanga. En þau eru gagnslaus í raun og veru,“ segir Guðmundur.

„Þó þú takir einhverja konfektmola úr lögum Norðurlandanna þá er það gagnslaust ef þú tekur ekki allt betrunarkerfið. Við í dag eigum enga sérfræðinga í betrun, enga þekkingu, menntun og reynslu.“

Guðmundur segir að allt bendi til þess að annar hver fangi komi aftur í fangelsin og sextíu prósent fanga útskrifist sem öryrkjar. „Þetta er bara erfiður staður. Málið er að fangelsiskerfi virkar ekki nema það sé gulrótarkerfi. Í dag eru svo fá urræði og þú þarft að bíða svo lengi að menn geta bara haldið áfram að haga sér eins og hálfvitar allan tímann, verið í agaviðurlögum og neyslu en það skiptir engu máli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×