Körfubolti

Losuðu sig við Mario Chalmers til að lækka lúxusskattinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Chalmers.
Mario Chalmers. Vísir/Getty
Mario Chalmers er orðinn leikmaður Memphis Grizzlies í NBA-deildinni en Miami Heat ákvað að senda hann til Memphis.

Chalmers og framherjinn James Ennis fara til Memphis Grizzlies í skiptum fyrir þá Beno Udrih og Jarnell Stokes.

Mario Chalmers er 29 ára gamall og hefur spilað allan sinn feril með Miami Heat en hann varð NBA-meistari með liðinu 2012 og 2013.

Mario Chalmers skrifaði undir nýjan samning við Miami Heat í júlí 2014 en mögulegi skipti á honum hafa verið í umræðunni upp á síðkastið enda eru forráðamenn Miami Heat að reyna að lækka lúxusskatinn.

Chalmers var ekki lengur byrjunarliðsmaður eins og á árunum með LeBron James og er bara búinn að spila í 20,0 mínútur í leik. Hann er að skora um helmingi færri stig að meðaltali en á síðasta tímabili.

Chalmers var með 5,5 stig og 3,2 stoðsendingar að meðaltali í fyrstu sex leikjum sínum með Miami en er bara búinn að hitta úr 31 prósent skota sinna.

Mario Chalmers er ætlað að hrista upp í hlutunum hjá liði Memphis Grizzlies sem hefur ekki staðið undir væntingum í upphafi leiktíðar. Memphis-liðið tapaði meðal annars með 50 stiga mun á móti Golden Stata Warriors og tapaði 5 af fyrstu 8 leikjum sínum.

Miami Heat verður sjötta NBA-lið Beno Udrih en hann hefur einnig spilað með San Antonio, Sacramento, Milwaukee, Orlando, New York og svo Memphis Grizzlies.

Miami Heat þarf einnig að losna við samning Chris Andersen ætli félagið sér að losna við lúxusskattinn. Það er heldur ekkert öruggt að Beno Udrih spili lengi með Miami áður félagið skiptir til annars félags.  Það er því von á flerii hrókeringum hjá Pat Riley á næstunni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×