Enski boltinn

Simmons sagt upp hjá Njarðvík

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Simmons í grænju treyjunni.
Simmons í grænju treyjunni. Vísir/Anton
Bandaríkjamaðurinn Marquis Simmons hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Njarðvík en samningi hans hefur verið sagt upp. Þetta kom fram á karfan.is.

„Hann var einfaldlega ekki að standa undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar,“ sagði Gunnar Örn Örlygsson, formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, í samtali við karfan.is.

Simmons hefur verið með 18,7 stig og 11,4 fráköst að meðaltali í leik í vetur en Njarðvíkurliðið hefur ekki náð sér á flug í vetur og er sem stendur í sjötta sæti Domino's-deildar karla með tíu stig eftir níu leiki.

„Við töldum réttast að gera þetta svona frekar en að láta hann klára til jóla. Það sýnir fagmennsku af okkar hálfu og einnig tel ég með fullri virðingu fyrir honum að aðrir leikmenn eigi að geta fyllt það skarð sem hann skilur eftir sig,“ sagði Gunnar.

Njarðvíkingar reyndu að fá íslenskan bakvörð til liðsins í haust en það gekk ekki. Opnað verður fyrir félagaskipti í janúar og segir Gunnar að Njarðvík muni þá reyna að finna bakvörð á íslenska leikmannamarkaðnum á nýjan leik.

Gunnar segir að ef Njarðvík finnur íslenskan bakvörð muni liðið fá sér stóran bandarískan leikmann á nýjan leik en að öðrum kosti gæti farið svo að liðið myndi leita sér að bandarískum bakverði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×