Golf

Tiger og Elin eru bestu vinir í dag

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Tiger og Elin er allt lék í lyndi.
Tiger og Elin er allt lék í lyndi. vísir/getty
Tiger Woods stendur á tímamótum. Hann er að verða fertugur og búinn að vera atvinnumaður í golfi í tæp 20 ár.

Á ótrúlegum ferli hefur hann unnið 14 risamót. Aðeins Jack Nicklaus hefur unnið fleiri eða 18. Lengi vel var útlit fyrir að Tiger myndi pakka þessu meti saman en hann hefur ekki unnið risamót síðan 2008 og ekkert sem bendir til þess að hann muni vinna annað mót.

Er upp komst um framhjáhald hans hefur í raun hvorki gengið né rekið hjá honum. Innan sem utan vallar. Allar endurkomutilraunir hafa endað illa og hann hefur meiðst mikið. Svo mikið reyndar að óljóst er hvort hann eigi framtíð sem atvinnukylfingur.

„Dagurinn hjá mér í dag snýst um 10 mínútna göngu á ströndinni. Svo ligg ég bara upp í sófa eða rúmi," segir Tiger í ítarlegu viðtali við Time en hann hefur ekki gefið mörg færi á slíkum viðtölum síðustu árin.

Það er erfitt að sjá annað en að Tiger sé orðinn háflþunglyndur yfir ástandinu.

„Ég man ekki hvenær ég horfði síðast á golf. Ég þoli ekki að horfa á íþróttina núna. Ég geri það bara ef einhver vina minna á möguleika á því að vinna. Ég horfði á Jason Day vinna PGA-meistaramótið en ég var með slökkt á hljóðinu. Ég er alltaf með golfið á hljóðlaust á meðan ég horfi á einhvern annan leik."

Það hafa verið margir erfiðir dagar á vellinum síðustu ár.vísir/getty
Börnin skipta meira máli en golfið

Tiger segir að það sé ómögulegt að segja til um hvenær hann geti snúið aftur út á golfvöllinn.

„Ég get ekki einu sinni sett mér markmið. Markmið dagsins er kannski að gera ekkert. Þetta er erfitt fyrir mann sem er vanur því að vinna mikið. Ég veit þó að ég vil ekki fara í fleiri aðgerðir og þó svo ég geti ekki spilað aftur vil ég eiga gott líf með börnunum mínum. Ég gat það ekki þegar ég fór í síðustu aðgerðir," segir Tiger sem var þá oft þjáður vegna verkja.

Eins og áður segir er möguleiki á því að ferli Tigers sé lokið. Hefur hann hugsað mikið um það?

„Þeir sem hafa farið í aðgerðir eins og ég segja það sama. Að maður viti ekki hvað gerist. Svona taugameiðsli eru þess eðlis. Ég hef talað við Peyton Manning um hans hálsmeiðsli og hvað hann hefur gengið í gegnum. Íþróttamenn vita aldrei hvenær þeirra ferli lýkur. Aðalatriðið er að ég geti átt gott líf með börnunum. Það skiptir meira máli en golf. Ég hef áttað mig á því í dag."

Þar sem Tiger er heimsþekkt stórstjarna er hann mikið í fjölmiðlu um allan heim. Ekki er allt jákvætt sem skrifað er um hann í blöðin. Hvað finnst honum um þessa umfjöllun?

„Fjölmiðlar þurfa aldrei að bera ábyrgð á því sem þeir birta. Það er oftast engin heimild á bak við þessar fréttir. Ég hlusta ekki á þetta og ég fer heldur ekki á netið þannig að ég sé þetta oftast ekki," segir Tiger en hann hefur sjaldnast lesið um sjálfan sig.

„Það hefur gert mér gott að vera ekkert að því. Eins og pabbi sagði þá var þetta fólk ekki með mér. Eini sem gæti haft alvöru skoðun væri kylfusveinninn. Hann skilur leikinn og hvað ég var að gera eða reyna að gera. Mér er alveg sama hvað öðrum finnst."

Tiger með krakkana sína.
Átti að vera opnari og heiðarlegri við Elinu

Líf hans breyttist árið 2009 er hann var gripinn við framhjáhald og eiginkona hans, Elin Nordegren, yfirgaf hann.

„Ef ég gæti myndi ég breyta öllu sem gerðist þetta ár. Ég hefði átt að vera opnari og heiðarlegri við þáverandi eiginkonu mína. Ég á frábært samband við hana í dag og hún er ein af mínum bestu vinum. Við tökum upp símann og tölum lengi saman. Við vitum bæði að börnin eru það mikilvægasta í okkar lífi. Ég vissi að ég hefði gert mér grein fyrir því á sínum tíma," segir Tiger en af hverju vissi hann það ekki?

„Kannski var það staðan sem ég var í eða að ég nýtti mér aðstæður mínar. Í grunninn hefði ég bara átt að eiga opnara og heiðarlegra samband við eiginkonuna mína. Þá hefðum við getað leyst okkar vandamál.

„Það er frábært að eiga svona gott samband við hana í dag og ég segi krökkunum frá því að ástæðan fyrir því að mamma og pabbi búi ekki saman sé því pabbi hafi gert nokkur mistök. Ég vil að þau viti það áður en þau fara að nota internetið eða einhver fer að segja þeim frá. Við erum öll mannleg og gerum mistök."

Lengsta samband Tiger eftir hjónbandið var með skíðakonunni Lindsey Vonn. Þau voru saman í þrjú ár en sambandið gekk ekki. Vonn viðurkenndi á dögunum að hún væri enn ástfangin af Tiger en sambandið hefði bara ekki gengið upp.

„Það sem var erfitt hjá okkur er að við fengum aldrei tíma til að vera saman. Við vorum bara að senda sms. Sambandið var gott en samt svo erfitt því við vorum bæði svo upptekin við okkar íþróttir. Sambandið var gott en gekk ekki upp og það var ósanngjarnt gagnvart okkur báðum," segir kylfingurinn.

Tiger náði einu sinni að horfa á Vonn keppa. Það endaði með því að hann fékk myndavél í andltiðið og braut tönn.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×