Innlent

Krónan kostar heimilin allt að 29 milljarða á ári

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Bjarni segir erfitt að meta samfélagslegan kostnað af sjálfstæðum gjaldmiðli.
Bjarni segir erfitt að meta samfélagslegan kostnað af sjálfstæðum gjaldmiðli. Vísir/GVA
Krónan kostar íslensk heimili 11-29 milljarða króna á ári. Þetta er mat Seðlabanka Íslands sem kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á þingi. Þar svarar hann fyrirspurn frá Björgvini G. Sigurðssyni um kostnað við sérstakan gjaldmiðil.

Í svarinu er vísað í skýrslu Seðlabankans um valkostiu í gjaldmiðils- og gengismálum frá árinu 2012 en þar kom fram að kostnaður fyrir heimili vegna hærri vaxta sé á bilinu 0,6-1,5 prósent. Skuldir heimila voru í lok september á þessu ári  1.900 milljarðar. Erfiðara er að meta kostnað fyrirtækja. 

Bjarni segir í svarinu að ekki sé einfalt tölulegt mat á árlegan kostnað samfélagsins af því að halda úti krónunni. „Kostnaðurinn felst m.a. í óvissu í viðskiptum og því að þurfa að skipta á milli gjaldmiðla í viðskiptum við önnur lönd,“ segir hann í svarinu.

„Eigin gjaldmiðli getur einnig fylgt kostnaður virki hann sem hindrun á viðskipti við önnur lönd eða auki hann sveiflur í þjóðarbúskapnum. Á móti kann eigin gjaldmiðill og peningastefna að auðvelda aðlögun þjóðarbúskaparins að efnahagsáföllum sem eru sértæk fyrir innlendan þjóðarbúskap.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×