Hjá Regínu og Kjartani hefur myndast skemmtileg hefð í kringum vígslu jólaþorpsins fyrsta sunnudag í aðventu ár hvert.
![](https://www.visir.is/i/25856843642C1DBCC1483B16EBD52DFD38D910007BB284D1B16BFA9226F20BBE_390x0.jpg)
Barnabörn eiga að sögn Regínu stundum erfitt með að gera sér í hugarlund hvernig lífið var á tímum Dickens fyrir tæpum tvö hundruð árum.
„Við hvetjum þau hins vegar til að fanga jólaanda samtímans og búa til sínar eigin litlu framhaldssögur. Þau standa því oft fyrir framan þorpið og segja sína sögu,“ útskýrir Regína sem er bókasafnsfræðingur og leggur mikið upp úr lestri og sögum. Eftir að búið er að stilla þorpinu upp má ekkert færa til.
![](https://www.visir.is/i/1E3B3F3EA6C0BDF9406B4997E4A8704F1CA064CCF4C8E290E72C4848CCD17C86_390x0.jpg)
Þau Regína og Kjartan hafa miklar mætur á Jólaævintýri Dickens.
„Sagan er skrifuð fyrir 172 árum og segir frá hinum raunverulega anda jólanna. Hún fjallar um Skrögg sem er bitur og nískur og vill hvorki gefa veraldlegan né andlegan auð. Jólaandarnir koma vitinu fyrir hann og hann verður að sönnu jólabarni. Inntak sögunnar er því það sama og inntak jólanna; kærleikur og gjafmildi.“
Í þorpinu eru hatta- og göngustafabúð, úrsmiður, hljóðfæraverslun, sælgætisbúð, hús útgefanda, bókabúð og skrifstofa Skröggs og Marleys ásamt tilheyrandi íbúðarhúsum. Lengi var engin kirkja í þorpinu en börnum og barnabörnum Kjartans og Regínu fannst hana sárlega vanta.
![](https://www.visir.is/i/219108511C2752B8507A0CDEC8440409494F0FF650E4842DEC1293AAF476C703_390x0.jpg)
Regína eignaðist fyrstu húsin í þorpið árið 2004. Það var annars vegar hús Cratchit-fjölskyldunnar en herra Cratchit var illa launaði skrifarinn hans Skröggs. Hitt var venjulegt íbúðarhús frá Viktoríutímanum.
„Eldri dóttir mín gaf mér þau en henni datt í hug að þau féllu vel að bókmenntaáhuga mínum. Það reyndist rétt og síðan höfum við Kjartan safnað.“
Spurð hvort þau ætli að bæta við þorpið segir Regína helst þurfa slátrara, bakara og krambúð. „Framvindan í þorpinu fer líka svolítið eftir því hvað er að gerast í fjölskyldunni og þegar elstu barnabörnin byrjuðu í skóla urðum við til dæmis að bæta honum við. Þá finnst krökkunum sárvanta jólasvein.“
![](https://www.visir.is/i/F367203AE3F67989C7BB57B2ABC0A298BFD513686985B8A1B43544CF061F0BB9_713x0.jpg)
![](https://www.visir.is/i/F83DB4506234F26864A1390C1DF206F12B8950BF75F2F856C95946780F802197_713x0.jpg)
![](https://www.visir.is/i/3E3A58FA5E05044EE896D1672238777DCB876F5C5DF03B51863D45EA7A888970_713x0.jpg)
![](https://www.visir.is/i/610FA3497E7944EE8FE5CCC8EDAD22B4C2FA47D11B3054A8AA3105EFEA0DF33B_713x0.jpg)