Körfubolti

Kanalaus lið mætast í síðasta leik ársins í Ljónagryfjunni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson er sannkallað Kanaígildi.
Haukur Helgi Pálsson er sannkallað Kanaígildi. vísir/vilhelm
Fyrri umferð Domino's deildar karla í körfubolta klárast í kvöld þegar Njarðvíkingar taka á móti Grindavík í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Það er við hæfi að þessi lið mætist í lokaumferðinni enda í sömu stöðu þar sem bandarískir atvinnumenn beggja liða hafa yfirgefið sín lið.

Njarðvíkingar unnu sinn fyrsta leik eftir að Marquise Simmons var rekinn og það á heimavelli Haukanna, einu af liðunum sem munu keppa við þá um heimvallarrétt í úrslitakeppninni.

Grindvíkingar þekkja það líka að spila án Bandaríkjamanns og eru líka með fleiri sigurleiki en tapleiki þegar þeir hafa spilað án bandarísks leikmanns á þessari leiktíð.

Grindvíkingar unnu aftur á móti alla þrjá sigra sína Kanalausir áður en Eric Wise kom til liðsins. Grindavík hefur jafnframt tapað síðustu þremur deildarleikjum sínum þar sem liðið hefur aðeins skorað 71,3 stig að meðaltali í þeim.

Grindvíkingar hefðu vissulega þurft á nýju blóði að halda til að rífa sig upp úr ládeyðu síðustu vikna en fá nú að mæta kanalausu liði eins og var raunin þegar þeir löbbuðu yfir ÍR-inga í Seljaskólanum í október.

Annars hefur Kanalausu liðunum gengið vel í Domino's deild karla í vetur og hafa samanlagt unnið 9 leiki af 14 sem þýðir 64 prósent sigurhlutfall. Haukarnir unnu níunda leikinn á Egilsstöðum í gær.

Leikur Njarðvíkur og Grindavíkur verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og klukkan 22.00 munu Kjartan Atli Kjartansson og félagar fara yfir alla umferðina í Domino's körfuboltakvöldi.

fréttablaðið

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×