Erlent

Einn öflugasti foringi uppreisnarmanna í Sýrlandi fallinn

Heimir Már Pétursson skrifar
Talsmaður einnar öflugustu samtaka uppreisnarmanna í Sýrlandi hefur staðfest að leiðtogi þeirra hafi fallið síðast liðinn föstudag. Rússneski flugherinn hefur birt upptökur af sprengiárásum sínum á olíutanka ISIS samtakanna í landinu.

Jaysh al Islam uppreisnarhópurinn hefur ráðið ríkjum í úthverfum í austurhluta Damaskus, sem kallast Ghouta allt frá árinu 2013 þegar nokkrir uppreisnarhópar sameinuðust í einn.

Rússneski flugherinn hefur haldið uppi sprengjuárásum á vígi uppreinsnarmanna að undanförnu en ekki er vitað hvort Zahran Alloush leiðtogi uppreisnarmanna féll í þeim árásum. En Rússneski flugherinn birti í dag myndir af loftárásum sínum sem þeir segja vera á olíutanka og flutningabíla Isis samtakanna.

Talsmaður Jaysh al Islam segir í myndbandstilkynningu að hinn góði leiðtogi, Abu Abdullah Mohammad Zahran Bin Abdullah Alloush hafi fallið á austurvígstöðvunum í Ghouta og biður hans Guðs blessunar. Orð dugi ekki til að mæra hann og hann lofar sýrlensku þjóðinni að baráttan haldi óbreytt áfram með Alloush sem fyrirmynd.

Dauði hins 44 ára gamla leiðtoga er sagt vera mikið áfall fyrir uppreisnarmenn en talsmaður samtaka þeirra segir hann hafa fallið í loftárás þar sem hann var að funda með öðrum uppreisnarleiðtogum.

Þá telja sumir sérfræðingar í málum Sýrlands að upplausn í röðum uppreisnarmanna vegna loftárása Rússa geti tryggt Assad forseta Sýrlands yfirráð að nýju yfir svæðunum austur af höfuðborginni Damsakus.

Rússar segjast einungis gera loftárásir á Isis en uppreisnarmenn gegn Assad forseta fullyrða að þeir ráðist skipulega gegn þeim. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×