
Það eru aðeins rúmir átta áratugir síðan Plútó fannst á sveimi, djúpt í ískaldri víðáttu sólkerfisins. Það er ótrúleg staðreynd, sérstaklega í ljósi þess að í júlí á þessu ári fylgdist heimsbyggðin með því þegar geimfarið New Horizons vitjaði Plútós og myndaði í miklu návígi eða í 12.500 km hæð yfir yfirborði dvergreikistjörnunnar.

Draugaleg virkni
Við fögnuðum 100 ára afmæli hinnar sértæku afstæðiskenningar Einsteins í ár, og um leið móðguðum við hann með því að sanna kenninguna um að skammtaheimurinn er ekki háður staðfestu, það er, að athugun á tiltekinni eind hefur á sama augnabliki og óháð ljóshraða áhrif á aðra eind. Einstein kallaði þetta „draugalega virkni úr fjarlægð“. Hann var ekki hrifinn enda gengur kenningin þvert á hugmyndir hans um tíma og rúm.
Engu að síður tókst vísindamönnum við Delft-háskólann að sýna fram á óstaðbundin tengsl rafeinda sem voru í 1,3 kílómetra fjarlægð hvor frá annarri og það 245 sinnum á 18 dögum. Fyrirgefðu Einstein, en til hamingju með áfangann!

Yfirlýsingar vísindamanna um vatn á Mars eru orðnar að hálfgerðri klisju meðal áhugamanna um rauðu plánetuna. Í september varð aftur á móti ljóst að NASA hafði uppgötvað eitthvað algjörlega nýtt á Mars. Það reyndist vera árstíðabundið, fljótandi vatn. Vatn er mögulega orðum ofaukið. Þetta er í raun pækill sem seytlar niður fjallshlíðar á stöku stað og myndar dökkar rákir sem vísindamenn hafa velt vöngum yfir lengi. Uppgötvunin er enn ein vísbendingin um að Mars hafi verið, og sé mögulega, lífvænlegur staður.
Tekist á um erfðatilraunir
CRISPR-erfðatæknin vakti mikla athygli þegar hún var kynnt árið 2009. Það var hins vegar í ágúst á þessu ári sem almenningur gerði sér loks grein fyrir möguleikum hennar þegar kínverskir vísindamenn tilkynntu að þeir hefðu átt við erfðaefni í ólífvænum fósturvísum.
Í stuttu og afar einföldu máli felst CRISPR í því að nota RNA og ensím til að ráðast á vírusa. Í raun er hægt að nota tæknina til að breyta nánast hvaða erfðavísi sem er. Með CRISPR verður mögulega hægt að eyða stökkbreytingum sem valda arfgengum sjúkdómum en tilraunir vísindamanna í Kína leiddu til þess að almenningur þurfti í fyrsta skipti að horfast í augu við gríðarlegan mátt erfðatækninnar.

Hvað kostar að framleiða ofurheitt helíum-plasma í örfá sekúndubrot? Svarið er 130 milljarðar króna og tíu ár af rannsóknarvinnu. Þetta var þessi virði fyrir vísindamenn hjá Max Planck-stofnuninni í Greifswald í Þýskalandi sem ræstu Wendelstein 7-X vélina, eða Stellarator, fyrr á þessu ári, þar sem segulsvið er framleitt með ofurleiðni við alkul til að halda rafgasi í lausu lofti. Þetta er stutt en engu að síður stórt skref í átt að beislun samrunaorku. Stellarator-vélin markar tímamót en sjálf lítur vélin út eins og eitthvað sem kom af teikniborðinu í verkfræðistofnun kölska.