Bandaríska kleinuhringja- og kaffihúsafyrirtækið á í viðræðum við mögulegan samstarfsaðila hérlendis um að hefja starfsemi hér. Þetta staðfestir Justin Drake, starfsmaður almannatengslaskrifstofu Dunkin'Donuts, í tölvupósti til Markaðarins. Samkvæmt heimildum Markaðarins stendur til að opna kaffihús hér á landi á þessu ári. Ef af verður þá yrði það fyrsta alþjóðlega kaffihúsið á Íslandi.
„Eftir að hafa kannað málið hjá alþjóðaskrifstofu okkar þá getum við staðfest að Dunkin' Donuts hefur verið í viðræðum við fyrirtæki á Íslandi um að selja hágæða kaffi, samlokur og bakkelsi á Íslandi undir merkjum Dunkin' Donuts. Við höfum ekki skrifað undir samninga enn þá og getum því ekki veitt frekari upplýsingar á þessum tímapunkti,“ segir í svari frá Drake.
Dunkin' Donuts er eitt stærsta kaffihús í heimi og selur meira en einn milljarð kaffibolla árlega. Fyrirtækið, sem er með höfuðstöðvar í Canton í Massachusetts, var stofnað árið 1950 af William Rosenberg. Keðjan stækkaði ört og árið 1963 voru komnir 100 veitingastaðir í Bandaríkjunum. Árið 1965 var svo fyrsti veitingastaðurinn utan Norður-Ameríku opnaður en það var í Japan árið 1970. Fyrsta kaffihúsið á Norðurlöndunum var opnað í Taby-verslunarmiðstöðinni í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar, þann 5. desember 2014.
Nú eru ellefu þúsund kaffihús víðsvegar í 34 löndum og kaupa rösklega þrjár milljónir manna kaffi þar á hverjum degi. Dunkin' Donuts selur alls kyns heita og kalda kaffidrykki, svo og kleinuhringina frægu, og kökur og rúnnstykki.
