Skoðun

Þingmál: Engar raflínur í jörð

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar
Mikið hefur verið rætt um nauðsyn þess að koma rafmagnslínum í jörð til að draga úr neikvæðum sjónrænum áhrifum þeirra. Á liðnum vetri lagði iðnaðar- og viðskiptaráðherra fram tvö þingmál um raforkumál. Verði málin að veruleika munu umhverfissjónarmið fara mjög halloka og lagning jarðstrengja á hárri spennu verður nær útilokuð í fyrirsjáanlegri framtíð.

Tröllvaxnar loftlínur framtíðarsýnin

Í frumvarpi um breytingu á raforkulögum er gert ráð fyrir að þegar Landsnet reiknar út þörf á nýjum raflínum í kerfisáætlun sinni geti fyrirtækið miðað við orkuflutning frá öllum virkjanahugmyndum í orkunýtingar- og biðflokki rammaáætlunar. Þetta myndi þýða stórar og tröllslegar loftlínur um allt land eins og við m.a. þekkjum af Hellisheiðinni og frá Fljótsdalsstöð niður á Reyðarfjörð. Þar sem að orkunýtingarflokkur jafngildir ekki ákvörðun um að virkja, hvað þá biðflokkur, yrði með þessu lögfest að Landsnet tæki mið af óraunhæfum eða fölskum forsendum við áætlanagerð sína. Það má ekki verða.

Völd frá sveitarstjórnum til Landsnets

Með frumvarpinu er lýðræðislega kjörnum sveitarstjórnum gert skylt að samræma skipulagsáætlanir sínar við verkefni í tíu ára kerfisáætlun Landsnets. Þá bæri þeim að passa að skipulagsmál hindri ekki framgang verkefna fyrirtækisins í þriggja ára framkvæmdaáætlun þess. Sveitarfélag hefði því lítið um það að segja hvort loftlína eða jarðstrengur lægi í gegnum viðkvæm svæði þess.

Stefna um engar raflínur í jörð?

Hin tillaga ráðherra gengur út á stefnu um lagningu raflína. Sett eru fram viðmið um við hvaða aðstæður megi leggja jarðstrengi þrátt fyrir að þeir kosti meira en loftlínur. En þau viðmið ná ekki einu sinni til allra náttúruverndarsvæða og, ótrúlegt en satt, ekki til víðerna, einmitt þar sem sjónræn áhrif loftlína eru afar neikvæð. Í ofanálag má kostnaðarmunur ekki fara yfir ákveðið þak til að viðmiðin eigi við, nema fyrir einstöku landgerð. Með þessu er í reynd verið að útiloka lagningu stórra 220kV jarðstrengja á Íslandi, en stefna Landsnets er einmitt að byggja meginflutningskerfið upp á 220kV. Landsnet hefði því frítt spil fyrir loftlínuskóga út um allt land, þ.m.t. á Sprengisandi, í Skagafirði, Öxnadal, á Reykjanesskaga og víðar.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×