Erlent

Boðar líklega til þingkosninga í næstu viku

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Helle Thorning-Schmidt mælist vinsælasta forsætisráðherraefnið í Danmörku.
Helle Thorning-Schmidt mælist vinsælasta forsætisráðherraefnið í Danmörku. AFP/Nordicphotos
Samkvæmt heimildarmönnum úr danska forsætisráðuneytinu er talið afar líklegt að Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, boði til þingkosninga í næstu viku.

Kosningar í Danmörku eru yfirleitt haldnar þremur vikum eftir að forsætisráðherra boðar til þeirra. Ef Thorning-Schmidt boðar til kosninga í næstu viku þýðir það að kosningarnar verða haldnar 16. júní. En kosningar þarf að halda í Danmörku í síðasta lagi 14. september.

Rauð blokk vinstriflokkanna mælist minni en blá blokk hægrimanna í skoðanakönnunum undanfarið en talið er að hún boði til kosninga á þessum tímapunkti vegna mikils persónufylgis upp á síðkastið. Þá mælist Jafnaðarmannaflokkur Helle Thorning-Schmidt stærstur með um 24 prósenta fylgi en Venstre, frjálslyndi flokkur Lars Løkke Rasmussen, með um 22 prósent í skoðanakönnunum. Gengi Venstre er nokkuð slakara en í síðustu kosningum þrátt fyrir setu í stjórnarandstöðu en það skýrist af velgengni Danska þjóðarflokksins sem sækir í sig veðrið á hægrivæng stjórnmálanna.

Jafnaðarmenn hafa náð að verja fylgi sitt frá því í síðustu kosningum en margir vilja þakka það nýrri innflytjendastefnu flokksins sem þykir strangari í garð innflytjenda en áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×