Innlent

Ólíklegt að semjist fyrir helgina

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Á fundi VM, RSÍ og Matvís með SA í Karphúsinu níunda þessa mánaðar.
Á fundi VM, RSÍ og Matvís með SA í Karphúsinu níunda þessa mánaðar. Fréttablaðið/Stefán
Líklegt er að dragist fram yfir helgi að niðurstaða fáist í samningalotu Samtaka atvinnulífsins við Samiðn, Grafíu/Félag bókagerðarmanna og Félag hársnyrtisveina, segir Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar. Yfirlýst stefna félaganna var að klára samninga fyrir dagslok í dag.

„Við erum enn að tala saman og verðum sjálfsagt fram yfir helgi að því,“ segir Hilmar. Órædd hafi verið mörg mál sem snúa að sérkröfum félaganna.

„En menn eru að tala saman alveg á fullu. Niðurstöðuna get ég hins vegar ekki spáð um, útkoma viðræðnanna ræður henni.“

Félögin, auk Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM), Rafiðnaðarsambandsins (RSÍ) og Matvís, frestuðu verkföllum en þau síðarnefndu höfðu ekki sett sér markmið um viðræðulok.

Guðmundur Ragnarsson
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM, segir félögin sitja á ströngum fundum með SA um sérmál og séu kannski rúmlega hálfnuð með pakkann sem settur hafi verið fram. 

„Við öndum bara með nefinu,“ segir hann. Núna kunni að vera lag að ná fram sérkröfum og gefa þá eftir einhverjar launakröfur á móti. 

„Okkur liggur svo sem ekkert á, það er ekki fyrr en 22. júní sem næsta verkfall skellur á.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×