Erlent

Bush sár út í Trump sem nýtur mests fylgis

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Donald Trump mælist með mest fylgi spænskumælandi kjósenda meðal repúblikana.
Donald Trump mælist með mest fylgi spænskumælandi kjósenda meðal repúblikana. nordicphotos/afp
Donald Trump nýtur mests fylgis meðal spænskumælandi kjósenda af þeim sem sækjast eftir útnefningu Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum til forsetaframboðs að því er ný könnun Public Policy Polling leiðir í ljós.

Forskot Trumps er ekki mikið. Alls sögðust 34 prósent spænskumælandi kjósenda geta hugsað sér að kjósa hann en 31 prósent sagðist hugsa sér að kjósa Jeb Bush, einn keppinauta Trumps.

Þá kemst Trump ekki nærri tölum Hillary Clinton, eins frambjóðenda demókrata, en 61 prósent spænskumælandi kjósenda sagðist geta hugsað sér að kjósa hana.

„Það særði mig að heyra einhvern tala á svona grófan máta,“ sagði Jeb Bush á þriðjudagskvöld í viðtali hjá sjónvarpsstöðinni MSNBC og vísaði þar til ummæla Trumps, sem sagði mexíkósk yfirvöld senda nauðgara og aðra glæpamenn til Bandaríkjanna.

Donald Trump hefur haldið því fram frá því ummælin féllu að hann myndi njóta mikils fylgis spænskumælandi Bandaríkjamanna.

Athygli vakti að viðtalið við Bush fór eingöngu fram á spænsku en Bush talar málið reiprennandi eftir að hafa flust sautján ára að aldri til Mexíkó þar sem hann kenndi börnum ensku. Í landinu kynntist hann svo eiginkonu sinni, hinni mexíkósku Columba Bush.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×