Veðurstofa Íslands greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni og birtir þar graf sem sýnir þróun skjálftavirkni í Bárðarbunguöskju síðan 1. mars í fyrra, eftir gosið í Holuhrauni. Veðurstofan segir að tíðni skjálfta á svæðinu hafi haldist frekar stöðugur en frá miðjum september síðastliðnum hefur orkuútlausnin aukist, sem þýðir að skjálftarnir eru öflugri en áður. Á grafinu kemur einmitt fram að skjálftar að stærð þremur eru tíðari síðastliðna mánuði.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands létti gosið í Holuhrauni á eldstöðvakerfinu en mælingar gefi til kynna að kvikusöfnun sé hafin í Bárðarbungu. Það sé ekki endilega ávísun á gos á næstu misserum en Veðurstofan vaktar svæðið gaumgæfilega.