Innlent

Illugi vill nýta bæði möguleika innan kerfis og utan til að bæta lestrarkunnáttu

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Illugi sagði óásættanlega stöðu uppi er varðar lestrarkunnáttu íslenskra barna.
Illugi sagði óásættanlega stöðu uppi er varðar lestrarkunnáttu íslenskra barna. Vísir/Daníel
Nýta verður alla krafta og hugmyndir til að finna leiðir til að bæta lestrarkunnáttu íslenskra ungmenna. Þetta kom fram í svari Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnum á þingi í morgun.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði Illuga út í hvort rétt væri eftir honum haft í Viðskiptablaðinu um að hann teldi skólakerfið ekki geta sjálft leysa þann vanda sem blasi við í lestrarkunnáttu barna og ungmenna. 

Blaðið birti ummæli sem hann lét falla í ræðu í tilefni af útgáfu lestrarforritsins Study Cake þar sem ráðherrann gagnrýndi hið opinbera skólakerfi: „Skólakerfið sjálft leysir þennan vanda ekki sjálft. Opinbera kerfið er ekki svo gott í að koma með nýjungar - og raunar er það frekar lélegt í því.“

Katrín bað um skýr svör.Vísir/Daníel
Illugi sagði einfaldlega slæma stöðu blasa við. „Nú er svo komið þegar maður skoðar tölurnar að það er eins og krakkarnir sem tóku prófið árið 2012 hafi verið hálfu áru skemur í skóla heldur en krakkarnir sem tóku prófið árið 2000. En öll vitum við að sú er ekki raunin,“ sagði hann.

Hann vitnaði svo í tölur um að 30 prósent drengja og tólf prósent stúlkna gætu ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla. 

„Ég hefði áhuga á því að heyra það frá háttvirtum þingmanni og fyrrverandi hæstvirtum ráðherra málaflokksins hvort að háttvirtur þingmaður sé þeirrar skoðunar að við getum sagt við foreldra til dæmis þeirra drengja sem ekki getað lesið sér til gangs í lok grunnskóla að við séum sátt við þá niðurstöðu, að okkur finnist okkur hafa tekist mjög vel upp hvað varðar nám þessara barna,“ sagði hann.

Katrín sagði augljóst að „Það er alveg rétt að við hefðum viljað sjá betri árangur í lestri en við höfum líka náð mjög góðum árangri á ýmsum öðrum sviðum, sem hæstvirtur ráðherra kýs að nefna ekki hér,“ sagði hún. 

Katrín vildi meðal annars frá svör frá ráðherranum um hvort hann sæi fyrir sér að leysa þennan vanda með aukinni einkavæðingu skólakerfisins. Illugi sagði að málið snerist í raun bara um eitt; að ná þeim árangri sem við þurfum að ná þegar kemur að menntun barnanna okkar.

„Niðurstaðan liggur fyrir og þess vegna þurfum við að breyta og við þurfum að nýta sem best alla krafta og allar hugmyndir og alla möguleika, bæði innan kerfis og utan, til að láta þessa stöðu ekki standa. Hún er óásættanleg,“ sagði Illugi að lokum í svarinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×