Innlent

Yfir tvö hundruð mál bíða óafgreidd í þinginu

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Þingið kemur saman eftir jólafrí á morgun og þar bíður þingmönnum haugur af málum.
Þingið kemur saman eftir jólafrí á morgun og þar bíður þingmönnum haugur af málum. Vísir/Ernir
Þingið kemur saman á ný á morgun eftir jólafrí og bíða nokkur stór mál afgreiðslu. Þar á meðal húsnæðisfrumvörp félags- og húsnæðismálaráðherra, væntanlegar umræður um afnám verðtryggingar og fleira. 

Afköst stjórnarinnar voru gagnrýnd af stjórnarþingmönnum fyrir áramót en þó eru tugir mála sem liggja fyrir þinginu og bíða afgreiðslu.

Yfir hundrað frumvörp bíða

Samkvæmt yfirliti frá Alþingi eru sextíu og átta frumvörp bíða enn fyrstu umræðu. Tuttugu og níu sitja í nefnd en þrjú bíða annarrar umræðu og eitt eftir þriðju og síðustu umræðu. Það mál sem næst er því að klárast, sem snýst um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, er á dagskrá næsta fundar.

Átta mál bíða afgreiðslu sem tengjast beinum hætti EES-samningnum; mál sem varða innleiðingu EES-reglna. Þar á meðal er mál fjármála- og efnhaagsráðherra um að heimila gengistryggð lán sem lagt er fram í kjölfar þess að Eftirlitsstofnun EFTA lagði fram rökstutt álit um málið.

Tuttugu og tvö frumvörp hafa verið samþykkt á yfirstandandi þingi.

Þingsályktanir bætast við

Til viðbótar við lagafrumvörpin eru svo yfir eitt hundrað þingsályktunartillögur sem hafa ekki verið afgreiddar. Samkvæmt samskonar yfirliti frá þinginu eru níutíu og tvær þingsályktunartillögur sem bíða fyrri eða einnar umræðu og ellefu sem sitja í nefndum.

Fimm þingsályktunartillögur tengjast með beinum hætti EES-samningnum. Er þar um að ræða ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum EES-samningsins. Þar eru þó einnig að finna tillögur á borð við styrkingu leikskóla og fæðingarorlofs, þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og siðareglur fyrir alþingismenn.

Níu þingsályktanir hafa verið samþykktar á yfirstandandi þingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×