Enski boltinn

Aubameyang verður ekki seldur fyrir 100 milljónir evra

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pierre-Emerick Aubameyang er markahæstur í Þýskalandi.
Pierre-Emerick Aubameyang er markahæstur í Þýskalandi. vísir/getty
Hans-Joachim Watzke, hinn málglaði og eiturhressi framkvæmdastjóri þýska 1. deildar félagsins Dortmund, segir að ekki einu sinni 100 milljóna evra tilboð sé nóg til að kaupa framherjann Pierre-Emerick Aubameyang frá liðinu.

Gabonmaðurinn hefur verið stórkostlegur á leiktíðinni og skorað 18 mörk í 18 leikjum í þýsku 1. deildinni þar sem hann er markahæstur.

Hann hefur undanfarna mánuði verið orðaður við félög á borð við Arsenal og Paris Saint-Germain, en Arsenal var sagt ætla kaupa framherjann í janúar til að gera alvöru atlögu að Englandsmeistaratitlinum.

Lothar Matthäus, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Þýskalands, sagði í viðtali fyrir helgi að enskt félag gæti borgað allt að 100 milljónir evra fyrir Aubameyang, en samkvæmt Watzke dugar slíkt tilboð ekki einu sinni til.

„Matthäus virðist vera sá eini sem veit eitthvað um þetta. En svona í alvöru þá myndi það engu breyta fyrir okkur ef eitthvað félag býður 100 milljónir evra í Auba. Hann verður ekki seldur,“ segir Watzke í viðtali við Bild.

Paris Saint-German er sagt í frönskum miðlum vera mjög áhugsamt um að fá Aubameyang til sín í sumar, en Gabonmaðurinn, sem er fæddur í Frakklandi, stóð sig vel með St. Étienne í frönsku 1. deildinni áður en hann kom til Dortmund.

„Það var kannski möguleiki að fara til PSG í fyrra en ekki núna. Ég hef engan áhuga á að snúa aftur til Frakklands að svo stöddu,“ segir Pierre Emerick-Aubameyang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×