Innlent

Vill að innflytjendur endurgreiði neytendum vegna tollkvóta

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Brynhildur Pétursdóttir
Brynhildur Pétursdóttir vísir/valli
Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, skorar fyrirtækin á Haga, Innnes og Sælkeradreifingu að skila 509 milljónum, sem þeim voru dæmdar í Hæstarétti 21. janúar síðastliðinn, aftur til neytenda. Þetta kom fram í ræðu hennar á Alþingi undir dagskrárliðnum störf þingsins í dag.

Í þremur dómum Hæstaréttar var fallist á endurgreiðslukröfu íslenska ríkisins til áðurnefndra fyrirtækja vegna fjárhæða sem þau greiddu fyrir tollkvóta og magntoll fyrir landbúnaðarafurðir sem þau fluttu inn. Alls fengur Hagar 245 milljónir króna í sinn hlut, Innnes 212 milljónir og Sælkeradreifing 52 milljónir.

Í ræðu sinni benti Brynhildur á að framkvæmdin hefði verið sú að greiða hefði þurft fyrir tollkvótana og kostnaðinum af því hefði verið velt út í verðlagið sem kæmi niður á neytendum.

„Spurningin er með þennan hálfa milljarð og hvernig neytendur munu njóta þess því það eru væntanlega þeir sem hafa greitt aukalega fyrir ostana og kjötið og hvað það nú er sem hefur verið flutt hingað til lands. Ég vil skora á þessa seljendur, einn þeirra er Hagar sem er stór aðili á markaði, að skila þessu til neytenda,“ sagði Brynhildur.

Hægt er að hlusta á ræðu Brynhildar í heild sinni með því að smella hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×