Innlent

Hægri grænir ganga til liðs við Íslensku þjóðfylkinguna

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hægri grænir samþykktu á aðalfundi í dag, með einróma ályktun, að leggja flokkinn niður og ganga til liðs við nýstofnaðan stjórnmálaflokk sem heitir Íslenska þjóðfylkingin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum.

Flokkurinn var stofnaður þann 17. júní árið 2010 og bauð fram í síðustu Alþingiskosningum. Guðmundur Franklín Jónsson var formaður flokksins sem hlaut 1,7 prósent í kosningunum og engan mann kjörinn.

Íslenska þjóðfylkingin vill meðal annars endurskoða aðild Íslands að EES og ganga úr Schengen samstarfinu. Þá vill flokkurinn almenna skuldaleiðréttingu íbúðalána, hækkun persónuafsláttar og nýjan gjaldmiðil. Flokkurinn hafnar hugmyndum um fjölmenningu hér á landi og mun berjast gegn því að moskur verði reistar hér á landi. Þá verði lagt bann við búrkum og skólum íslamista hér á landi. Flugvöllurinn skal vera áfram þar sem hann er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×