Innlent

Nýr búnaður og sérhæfður læknir eiga að auka öryggi sjúklinga

Bjarki Ármannsson skrifar
Landspítalinn mun á næstu vikum hefja framkvæmd aðgerða sem ekki hefur verið mögulegt að gera hér á landi undanfarin ár.
Landspítalinn mun á næstu vikum hefja framkvæmd aðgerða sem ekki hefur verið mögulegt að gera hér á landi undanfarin ár. Vísir/Getty
Landspítalinn mun á næstu vikum hefja framkvæmd aðgerða sem hann telur að muni auka öryggi sjúklinga með sjúkdóma í æðakerfi heila- og taugakerfis. Aðgerðir af þessu tagi voru gerðar í sumum tilfellum hér á landi fyrir um áratug síðan af erlendum sérfræðingum en undanfarin ár hafa sjúklingar verið sendir til útlanda í meðferð af þessu tagi.

Um er að ræða aðgerðir þar sem heilaæðagúlum er lokað með æðaþræðingartækni. Nýr tækjabúnaður gerir þetta mögulegt auk ráðningar sérhæfðs læknis á röntgendeild. Erlendir sérfræðingar munu þó fyrst um sinn koma hingað til lands og vera starfsfólki æðaþræðingardeildar innan handar.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra staðfesti nýverið samning um þessa þjónustu sem gerður hefur verið milli Sjúkratrygginga Íslands og Landspítala. Í tilkynningu segir ráðherrann að fimm ára áætlun um búnaðar- og tækjakaup til sjúkrahúsa og verulegar kjarabætur til heilbrigðisstarfsmanna sé nú að skila þeim árangri sem að var stefnt.

„Þetta sjáum við endurspeglast í ýmsum stórum skrefum sem verið er að taka til að efla og bæta þjónustu við sjúklinga,“ segir Kristján Þór. „Samningurinn sem hér um ræðir er gott dæmi um þetta.“ 

Búist er við að fyrsta aðgerðin verði á spítalanum í mars 2016. Auk kostnaðar sem fellur á Landspítala er kostnaður Sjúkratrygginga Íslands við samninginn áætlaður tæpar 100 milljónir króna. Það er þó gert ráð fyrir að samningurinn leiði til umtalsverðrar lækkunar á kostnaði þegar á heildina er litið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×