Innlent

Segir það fáránlegt að ganga fram með samninga án samstöðu

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Árni Páll segir margt benda til að samningarnir séu þó skref í rétta átt.
Árni Páll segir margt benda til að samningarnir séu þó skref í rétta átt.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að málefni búvörusamninga væri komið frá enda væri búið að undirrita samningana.

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar gagnrýnir samráðsleysi ríkisstjórnarinnar og bendir á að samningarnir eiga enn eftir að hljóta þinglega meðferð og hljóta samþykki til að veita megi fé úr fjárlögum.

„Það er auðvitað alveg fáránlegt að ríkisstjórn gangi fram með þeim hætti að gera samninga upp á gríðarlegar fjárhæðir en móti ekki nein samningsmarkmið fyrir hönd ríkisins og afla samstöðu um þau,“ segir Árni Páll.

Hann segir að menn ættu að hafa lært af mistökum fortíðar og nefnir Icesave samningana í því samhengi sem að ráðherrar núverandi ríkisstjórnar hafa reglulega gagnrýnt.

„Það er aldrei þannig að Alþingi íslendinga eigi ekki val um að staðfesta samninga sem ríkið hefur gert,“ segir hann.

Árni segir þó margt jákvætt í samningunum en enn á eftir að ráðast hvort að efni samninganna skili sér til neytenda.

„Mér sýnist ýmislegt horfa þarna til bóta en það liggur ekki alveg fyrir hvort það sé nægjanlegt. Að ýmsu leiti virðast þarna stigin skref í rétta átt en það á eftir að sjá smáa letrið og útfærsluna. Til dæmis hvort að mjólkuriðnaðurinn geti áfram kúgað smáa samkeppnisaðila og hvort að almenningur mun fá að njóta tollasamninga sem gerðir hafa verið við Evrópusambandið þannig að verð verði raunverulega lægra á þessum vörum sem fluttar verða inn eða hvort að menn finni enn einn ganginn leið til að gera þessa tollkvóta rándýra þannig að neytendur borgi brúsann,“ segir Árni Páll.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×