Fótbolti

Fyrirliði Stabæk spáir því að Hólmfríður verði leikmaður ársins í norsku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmfríður á æfingu með íslenska landsliðinu ásamt Þórunni Helgu Jónsdóttur sem spilar með henni hjá Avaldsnes.
Hólmfríður á æfingu með íslenska landsliðinu ásamt Þórunni Helgu Jónsdóttur sem spilar með henni hjá Avaldsnes. Vísir/Arnþór
Fyrirliðar norsku kvennadeildarinnar í fótbolta hittust á kynningarfundi deildarinnar á Ullevaal leikvanginum í Osló í gær en tímabilið hefst 28. mars næstkomandi.

Fyrirliðarnir voru látnir spá fyrir um hvaða lið verði norskur meistari, hver verði markahæst og hver verði kosin besti leikmaður tímabilsins.

Íslenska landsliðskonan Hólmfríður Magnúsdóttir hjá Avaldsnes fékk eitt atkvæði sem mögulegur leikmaður ársins og lið hennar fékk fimm atkvæði sem mögulegur norskur meistari í lok mótsins.

Það var fyrirliði Stabæk, Melissa Bjånesöy, sem hefur svona mikla trú á Hólmfríði á þessu tímabili en Hólmfríður var kosin besti sóknarmaður deildarinnar á síðustu leiktíð.

Fyrirliðar Arna Bjørnar, Urædd, Stabæk, Kolbotn og Avaldsnes spá því að Íslendingaliðið Avaldsnes verði norskur meistari í fyrsta sinn næsta haust.

Sjö fyrirliðar eru á því að Lilleström verji titilinn þótt að liðið hafi misst íslenska landliðsmarkvörðinn Guðbjörgu Gunnarsdóttur til Svíþjóðar.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og félagar hennar í Stabæk fengu þrjú atkvæði þegar fyrirliðarnir voru beðnir um að spá fyrir um hvaða lið endi í þremur efstu sætunum.

María Þórisdóttir, dóttir íslenska handboltaþjálfarans Þóris Hergeirssonar, er fyrirliði Klepp og hún spáir því að Lilleström verði meistari en Avaldsnes verði meðal þriggja efstu ásamt Lilleström og Röa.

Isabell Herlovsen hjá Lilleström fékk yfirburðarkosningu sem markadrottning deildarinnar en 10 af 12 fyrirliðum búast við því að hún skori flest mörk í deildinni í ár.

Það er hægt lesa meira um spána með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×